Íslenska tölvuleikjafyrirtækið Solid Clouds mun á næstunni ljúka við þýðingu á tölvuleiknum Starborne Frontiers á fjölda tungumála. Leikurinn verður fyrst þýddur á þýsku með aðstoð gervigreindar.

Í tilkynningu segir að þar sem leikurinn sé með sterkt þýskt leikjasamfélag hafi þýska orðið fyrir valinu.

Þýska er jafnframt eitt erfiðasta tungumálið til að þýða í tölvuleikjum en í þýsku eru notaðir um 30-40% fleiri bókstafir til að segja það sama og á ensku en textinn þarf að komast fyrir í viðmóti leiksins.

„Þýðing á Starborne Frontiers mun gera leikinn aðgengilegri og meira grípandi fyrir leikmenn um allan heim og auka þannig markaðsmöguleika hans til framtíðar,“ segir Stefán Gunnarsson forstjóri Solid Clouds.

Eftir að leikurinn hefur verið þýddur á þýsku verður byrjað að þýða hann yfir á önnur tungumál, þar á meðal nokkur frá Austur-Asíu.

Solid Clouds segist hafa séð vaxandi áhuga á leiknum frá spilurum á því svæði en Google er byrjað að vekja sérstaka athygli á leiknum í Kóreu og Japan. Þar að auki hafa margar af árangursríkustu auglýsingaherferðum félagsins verið í síðastnefndu löndunum.