Samherji varar við að fari stjórnarfrumvarp atvinnuvegaráðherra, þar sem lagðar eru til breytingar á lögum um stjórn fiskveiða sem snerta m.a. á skilgreiningu tengdra aðila, óbreytt í gegnum þingið gæti félagið farið yfir kvótaþak.
Í umsögn Samherja, sem forstjórinn Þorsteinn Már Baldvinsson undirritar, segir að svo virðist sem eini tilgangurinn með ákvæði í frumvarpinu sem kveður á um að tilgreind eignatengsl milli sjávarútvegsfyrirtækja hafi áhrif til hækkunar á reiknaðri aflahlutdeild þess fyrirtækis sem fer með eignarhlutinn, sé að leggja stein í götu Samherja hf.
Umrætt ákvæði frumvarpsins felur í sér að ef 20% eða meira af atkvæðisrétti í útgerðaraðila er beint eða óbeint á hendi annars útgerðaraðila eða aðila sem fer með yfirráð yfir öðrum útgerðaraðila, skuli bæta við reiknaða aflahlutdeild hins síðarnefnda jafnstórum hluta aflahlutdeildar hins fyrrnefnda og nemur hlutfallstölu atkvæðisréttarins.
Samherji, sem er stærsti hluthafi Síldarvinnslunnar (SVN) með 30% hlut, segir að verði frumvarpið að lögum óbreytt muni 30,06% af aflahlutdeild SVN leggjast ofan á aflahlutdeild Samherja Íslands ehf., dótturfélags Samherja hf.
„Þetta bindur hendur Samherja varðandi fjárfestingar í framtíðinni og gæti leitt til þess að félagið fari yfir lögbundna 12% hámarksaflahlutdeild (kvótaþak) sem kveðið er á um í 13. gr. laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða.
Ef slíkar aðstæður skapast myndi Samherji þurfa að selja hlutabréf í Síldarvinnslunni hf. til að komast undir 20% eignarhlut í félaginu eða selja frá sér skip með aflaheimildum, eða gera aðrar ráðstafanir um tilfærslu þeirra, til að fara aftur undir þakið.“
Feli í sér skerðingu á eignarrétti
Samherji segir að það sé í miklum vafa undirorpið að ofangreint ákvæði standist grundvallarreglur eignarréttarins enda sé um að ræða sérreglu sem leiðir til takmarkana og skerðingar á eignarrétti sjávarútvegsfyrirtækja sem eiga 20% eða meira í öðrum sjávarútvegsfyrirtækjum með aflahlutdeild.
„Litið hefur verið svo á í réttarframkvæmd að ef eignarréttarskerðing sem leiðir af lögum, líkt og sú sem ráðgerð er hér, bitnar hart á einum aðila kunni að vera litið svo á að þar sé í reynd um að ræða eignarnám í skilningi 72. gr. stjórnarskrár. Í frumvarpinu er engin athugun gerð á þessu atriði fremur en öðrum veigamiklum atriðum, svo sem áður greinir.“
Þá sé vandséð hvaða tilgangi þetta lagaákvæði þjóni eða hvaða markmiði að er stefnt með því. Félagið segir greinargerð frumvarpsins ekki leiða í ljós nein haldbær rök fyrir nauðsyn þessarar lagasetningar en um sé að ræða sérreglu og nýmæli sem felur í sér eðlisbreytingu á þeim reglum sem gilt hafa.
„Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að 20% hlutfallið taki mið af skilgreiningu á hlutdeildarfélögum í lögum nr. 3/2006 um ársreikninga. Hér er um allt annað réttarsvið að ræða og 20% viðmiðið er lagt til grundvallar á skilgreiningu hlutadeildarfélaga þegar lagt er mat á virði félags við gerð ársreiknings.“
„Svo virðist sem eini tilgangurinn með ákvæðinu sé að leggja stein í götu Samherja hf. Hér ætlar löggjafinn að horfa alfarið framhjá þeim jákvæðu áhrifum sem hlutafjáreign Samherja í Síldarvinnslunni hefur haft fyrir samfélagið í Fjarðabyggð, íslenskan sjávarútveg og íslenskt samfélag almennt en í því sambandi ber að vísa til fjölda vel borgandi starfa, fjárfestingar, verðmætasköpunar í greininni og fjölmargra afleiddra áhrifa í íslensku efnahagslífi.“
Standist vart almennum kröfum um réttarríki
Bent er á að Samherji hafi verið hluthafi í Síldarvinnslunni í aldarfjórðung. Þorsteinn Már tók fyrst sæti í stjórn Síldarvinnslunnar á árinu 2001 og hefur verið stjórnarformaður fyrirtækisins frá 2003. Á þessu tímabili hafi SVN vaxið og dafnað, skapað fjölda starfa í Fjarðabyggð og verið skráð í Kauphöllina árið 2021 þar sem eignarhlutur Samherja minnkaði úr 44,6% í 30,1%.
„Á undanförnum tíu árum hafi Síldarvinnslan fjárfest fyrir áttatíu milljarða króna í íslenskum sjávarútvegi og 99,75% af fjárhæðinni fór í endurnýjun skipa, byggingar á nýjum verksmiðjum, endurnýjun tækja og búnaðar fyrir veiðar og vinnslu og fjárfestingu í eldi. Aðeins 200 milljónir króna af þessum 80 milljörðum fóru ekki í beinar fjárfestingar á sviði sjávarútvegs en fóru engu að síður til nærsamfélagsins í Neskaupstað.“
Samherji segir að þau skilaboð sem send séu með ákvæðinu séu að allt framangreint sé ekki í lagi. Það sé þannig gefið til kynna að slæmt sé að eitt sjávarútvegsfyrirtæki með aflaheimildir eigi meira en 20% eignarhlut í öðru fyrirtæki sem einnig eigi aflaheimildir.
„Það er mjög gagnrýnivert að atvinnuvegaráðherra leggi fram frumvarp sem hefur að geyma ákvæði sem er ekki almennara en raun ber vitni. Til viðbótar framangreindum sjónarmiðum er lúta að eignarréttarákvæði stjórnarskrár er vandséð hvernig þessi nálgun samræmist almennt viðurkenndum viðmiðum um þá eiginleika sem löggjöf þarf að hafa til að standast almennar kröfur um réttarríki. Meðal þessara eiginleika eru að lögin séu framkvæmanleg, skiljanleg, aðgengileg, framvirk og almenn.“
Samherji segir að frumvarpið endurspegli ekki markmið um aukna verðmætasköpun í íslensku atvinnulífi heldur gangi í þveröfuga átt. Bent er að íslensk sjávarútvegsfyrirtæki, eins og Samherji og SVN, séu í harðri alþjóðlegri samkeppni við norsk fyrirtæki sem mörg hver eru stærri en íslenskur sjávarútvegur eins og hann leggur sig.
„Íslensku sjávarútvegsfyrirtækin hafa byggt upp vel launuð heilsársstörf Í fiskvinnslu meðan þau norsku senda í miklum mæli óunninn afla til Póllands þar sem laun eru margfalt lægri. Þau fáu norsku sjávarútvegsfyrirtæki sem stunda vinnslu í einhverjum mæli í Noregi reka sínar vinnslur yfirleitt aðeins í fáeina mánuði á ári og greiðir norska ríkið laun starfsfólks þá mánuði þar sem fiskur er ekki verkaður.
Í stað þess að leggja stein í götu íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja ætti ríkisstjórnin frekar að einbeita sér að því sem hún lofaði í stefnuyfirlýsingu sinni og stuðla að aukinni verðmætasköpun í íslensku atvinnulífi.“

Í umsögninni er einnig gagnrýnt að til standi að ofangreint ákvæði öðlist gildi 1. janúar 2027. Þessi frestur við gildistöku á íþyngjandi lagasetningu sé of skammur að mati Samherja og leggur félagið því til að gildistíma þessa ákvæðis verði frestað til 1. janúar 2028 í fyrsta lagi.
„Er því sambandi vísað til sjónarmiða um meðalhóf og að fyrirtækjum verði veitt sanngjarnt svigrúm til aðlögunar þegar íþyngjandi lagasetning er annars vegar. Í þeim ríkjum sem við berum okkur saman við er algengt að veittur sé allt að fimm ára frestur til aðlögunar þegar um íþyngjandi lagasetningu er að ræða.“