Gjaldheimta af ökutækjum mun taka töluverðum breytingum um áramótin verði frumvarp um kílómetragjald vegna notkunar ökutækja að lögum í haust líkt og stefnt er að. Með lögunum kemur kílómetragjald í stað olíu- og bensíngjalda, sem nú eru greidd við kaup á jarðefnaeldsneyti en slík gjöld verða felld brott.

Hagfræðingar sammælast um að áformin gætu haft áhrif á vísitölu neysluverðs þar sem eldsneytisverð mun lækka verulega og að öllum líkindum mun kílómetragjaldið ekki leiða til hækkunar þar sem það er ekki eyrnamerkt vegaframkvæmdum.

Félag íslenskra bifreiðaeiganda áætlar að verð á hvern bensínlítra gæti lækkað um 100 krónur á meðan sérfræðingar á skuldabréfamarkaði áætla að vísitalan neysluverð gæti lækkað um allt að 1 prósentustig. Í áformum ríkisstjórnarinnar sem birt voru í samráðsgátt í sumar er gert ráð fyrir að kolefnisgjald verði hækkað „til að viðhalda hvata til orkuskipta.“

Markmiðið með breytingunni er þó ekki að lækka verðbólguna heldur að auka tekjur ríkissjóðs af ökutækjum.

Gert er ráð fyrir að tekjur af ökutækjum og eldsneyti verði 1,5% af vergri landsframleiðslu á árinu 2025 og 1,7% af VLF árið 2027. Samkvæmt útreikningum greiningardeildar Arion banka er hins vegar ljóst að ef ríkið ætlar sér að ná þessum markmiðum þarf kolefnisgjaldið að öllum líkindum að þrefaldast.

Samkvæmt þjóðhagsspá Hagstofunnar verður landsframleiðslan 4.889 milljarðar króna árið 2025. Tekjur ríkisins af eldsneyti og ökutækjum þyrftu því að vera 73,3 milljarðar til að ná upp í 1,5% af VLF.

Til að lesa meira

Hægt að er kaupa áskrift að Viðskiptablaðinu, Fiskifréttum og Frjálsri verslun hér.

Verð frá 2.749 kr. á mánuði