Þýska ríkið var á söluhliðinni þegar Skel fjárfestingarfélag og aðrir fjárfestar festu kaup á Inno, stærstu verslunarkeðju Belgíu. Jón Ásgeir Jóhannsson, stjórnarformaður Skeljar, segir í nýjasta hlaðvarpsþætti Chess after Dark að kaupendum hafi boðist lágt verð gegn því að drífa viðskiptunum af síðasta sumar.
Tilkynnt var 13. júlín síðastliðinn að félag í jafnri eigu Skeljar og Axcent Scandinavia AB, sem á og rekur sænska verslunarfélagið Åhléns, keypti Inno. Belgíska verslunarfélaginu rekur 16 stórverslanir víðsvegar um Belgíu sem telja samtals 130.000 fermetra.
Seljandi Inno var Galeria Karstadt Kaufhof (GKK) sem er næst stærsta verslunarkeðja (e. department store group) Evrópu. GKK varð ógjaldfært í apríl 2020 og hlaut stuðning frá stöðugleikasjóði Þýskalands. Í tengslum við frekari rekstrarvandræði GKK hófst söluferli alls hlutafjár í Inno.
Jón Ásgeir sagði að þýska ríkið hafi eignast Inno eftir að hafa gengið að veði í þýska móðurfélaginu GKK í tengslum við Covid-lánveitinguna. „Þannig að við vorum að díla við þýska ríkið sem var mjög sérstakt.“
Skel og sænska verslunarfélagið voru með önnur tækifæri til skoðunar þegar Inno datt inn á borð þeirra í árslok 2023 að sögn Jóns Ásgeirs. Þeim þótti uppgefið verð á belgíska félaginu hins vegar alltof hátt.
Í maí 2024 hafi aftur verið haft samband við Skel og Åhléns og þeim boðið að „kíkja undir húddið“ hjá Inno. Þeir hafi þá átt nokkra fundi í Belgíu en hlutirnir æxlast þannig að útlit var fyrir að lítið yrði að frétta um sumarið.
Var á sólarbekknum
Jón Ásgeir lýsir því þannig að hann hafi verið á sólarbekk í kringum 20. júní þegar hann fékk símhringingu og var tilkynnt um að Inno væri fáanlegt fyrir lágt verð ef gengið yrði snögglega frá sölunni. Hann hafi þá spurt hvað sé lágt verð.
„Bara gerið okkur tilboð, en þið verðið að klára þetta fyrir 1. ágúst,“ segir hann og bætir við að hann hafi hugsað sér að það væri ekki séns að þetta myndi ganga.
„Svo buðum við í þetta og það var það var talsvert lægra heldur en það hafði verið stefnt að í byrjun. En þá var líka ákveðinn ómöguleiki í þessu. Þú ert ekki að sækja bankafjármögnun á miðsumri. [Auk þess] þurfum við að gera áreiðanleikakönnun.“
Jón Ásgeir segir að þetta hafi hins vegar að lokum gengið. Menn hafi unnið hart að því að klára viðskiptin fyrir mánaðamótin.
„Það átti að reyna að loka þessu en svo kom mánudagur. Við gerum aldrei díla á mánudögum. Þeir botnuðu ekkert í þessu. [...] Við náðum að klára þetta held ég hafi verið 28. [júlí, sunnudagur]. Þá fengum við fengum við lyklana frá Þjóðverjunum.“
Fjármálaráðherra gaf lokasamþykki
Þeir hafi í kjölfarið fengið þakkarbréf þar sem seljandinn sagði það vera ótrúlegt afrek að ná Svíum, Íslendingum og þýska ríkinu saman að klára samning af þessu taki í júlí „en að þeir væru ekki búnir að skilja þetta mánudagsmál“.
Jón Ásgeir segir að Christian Wolfgang Lindner, sem var fjármálaráðherra Þýskaland þar til í lok síðasta árs, hafi gefið lokasamþykki á viðskiptin.
Spurður um kaupverðið, sagði Jón Ásgeir að það hafi ekki verið gefið upp opinberlega að beiðni þýska ríkisins.
Nýta vörumerki sænska samstarfsaðilans
Hvað varðar sænska samstarfsaðila Skeljar, þá er Åhléns stærsta verslunarkeðja Svíþjóðar með 54 verslanir. Félagið er leitt af Ayad Al-Saffar og meðfjárfestum hans sem eignuðust verslunarkeðjuna árið 2022.
„Þeir hafa unnið þetta aðeins öðruvísi, hafa búið til sín eigin [vörumerki]. Það var það sem við sáum dálítið í þessu. Við gátum í raun sent vörubíla til Svíþjóðar að ná í nýjar vörur og vörumerki fyrir Inno [...]
Ég held að hafi verið 6 vikum eftir að við keyptum þá eru komnar vörur frá Svíþjóð inn á gólfið í Inno sem þykir nú gott í þessum bransa því yfirleitt þegar þú ert að kaupa inn og búa til [vörumerki] þá tekur það 12 til 18 mánuði að fá það frá „far-East“ og inn á gólf.“
Í fjárfestakynningu Skeljar eftir hálfsársuppgjör 2024 kemur fram að talin séu tækifæri til samlegðar milli Inno og Åhléns, m.a. vegna eigin vörumerkja sænska félagsins. Á meðal áætlaðra aðgerða sé aukið framboð af vörum með lægri verðpunkta, hagræðing í innkaupum og að leggja niður óarðbæra starfsemi.
Skel sagði smásölumarkaði (e. retail sector) hafa fengið litla athygli frá fjárfestum á undanförnum árum þar sem væntingar neytenda (CCI/væntingarvísitala) hafi verið í lágmarki „og líkist það aðstæðum sem uppi voru á mörkuðum í kringum árið 2000“.
Á síðasta reikningsári nam sala Inno 42,4 milljörðum króna, og fjöldi heimsókna í verslanir félagsins nam 21,4 milljónum, samkvæmt fjárfestakynningu sem Skel birti í dag. EBITDA afkoma félagsins nam 1,4 milljörðum króna.
Jón Ásgeir ræðir Inno-kaupin frá 22:00-29:15.