Þýska ríkið hyggst þjóðnýta Uniper, stærsta gasinnflytjanda þjóðarinnar, en viðskiptaþvinganir á hendur Rússa, sem meðal annars hafa leitt til hefts innflutnings á rússnesku gasi, hafa leikið félagið grátt.
Hyggjast þýsk stjórnvöld stíga inn með þessum hætti til að tryggja nægt orkuaðgengi. Þýska ríkið mun taka yfir 99% hlut í félaginu og leggja því til 8 milljarða evra.
Uniper var stærsti innflutningsaðili á gasi frá Rússlandi til Þýskalands en eftir innrás Rússa inn í Úkraínu neyddist félagið til að kaupa gas á öðrum mörkuðum. Gasverð hefur rokið upp úr öllu valdi vegna ástandsins en fyrir innrásina sköffuðu Rússar um 40% af gasnotkun í álfunni en brugðust við viðskiptaþvingunum Evrópulanda með því að draga verulega úr gasútflutningi.