Þýska hlutabréfavísitalan Dax varð í morgun sú fyrsta í Evrópu til að fara upp fyrir fyrri methæðir í mars síðastliðnum, áður en hlutabréfamarkaðir víða um heim tóku dýfu vegna óróa tengdum tollastríði Donalds Trumps Bandaríkjaforseta.

Dax hefur hækkað um 0,5% í fyrstu viðskiptum í dag. Í umfjöllun Bloomberg kemur fram að vísitalan hafi farið upp í 23.522,67 stig þegar mest lét í dag og fór þar með yfir fyrra met sem slegið var innan dags 18. mars síðastliðinn.

Stoxx Europe 600 vísitalan og breska vísitalan FTSE 100 hafa einnig hækkað um tæplega hálft prósent í morgun sem er að hluta rakið til viðræðna Bandaríkjanna og Kína um tollamál.

Dax vísitalan lækkaði frá byrjun mars fram í miðjan apríl um allt að 16% við óróa á mörkuðum í kjölfar tilkynningar Trumps um umfangsmikla tolla á viðskiptaríki Bandaríkjanna.

Sem fyrr segir hefur vísitalan þegar rétt úr kútnum en fjárfestar virðast hafa tekið vel í áform nýrrar ríkisstjórnar um aðgerðir í ríkisfjármálum til að stuðla að auknum umsvifum (e. fiscal stimulus) í þýska hagkerfinu. Bloomberg segir að þýska hlutabréfavísitalan sé orðin það vinsæl meðal fjárfesta að hún sé nú orðin hlutfallslega dýr í samanburði við aðrar evrópskar hlutabréfavísitölur.

Meðal stærstu félaganna í Dax vísitölunni sem hafa hækkað í dag er þýski bankinn Commerzbank en bréf bankans hafa hækkað um 2,4%. Hagnaður bankans á fyrsta ársfjórðungi var umfram væntingar, m.a. það sem virðisrýrnun fjáreigna var minni en greinendur höfðu gert ráð fyrir.

Haft er eftir fjárfestingarstjóra hjá eignastýringarteymi UBS í Frakklandi að bankageirinn hafi verið að leiða hækkanir á evrópska hlutabréfamarkaðnum á undanförnum vikum ásamt iðnaðarfyrirtækjum og fasteignafélögum. Þetta eigi einkum við á þýska markaðnum.