Lestarstarfsmenn í Þýskalandi eru á leið í verkfall og mega Þjóðverjar búast við það muni hafa stór áhrif á samgöngur í landinu.

Verkfallið hjá starfsmönnum vöruflutningalesta hefst klukkan sex í kvöld og klukkan tvö í nótt hjá starfsmönnum Deusche Bahn.

Stéttarfélagið GDL, sem talar fyrir lestarstarfsmenn, hvatti til verkfallsins en deilur hafa staðið yfir milli starfsmanna og ríkisins um bæði vinnutíma og laun.

Starfsmenn Lufthansa hafa einnig verið í verkfalli og hefur það haft mikil áhrif á stærstu flugvelli landsins, þar á meðal Frankfurt og Munchen.

Tilkynnt var um verkfallið í gærkvöldi í samræmi við tilkynningu stéttarfélagsins sem kom í síðustu viku um að það myndi ekki lengur gefa 48 klukkustunda fyrirvara fyrir verkfall.

GDL hefur meðal annars farið fram á að vinnuvikan verði stytt úr 38 klukkustundum í 35 án launaskerðingar.