Frumútboð breska hálfleiðarafyrirtækisins Arm hefur farið einstaklega vel af stað en samkvæmt Bloomberg er tífalt meiri eftirspurn í bréf fyrirtækisins en búast var við. Verðbréfamiðlarar og bankar eru hættir að taka við tilboðum en Arm verður skráð á Nasdaq á morgun.
Um er að ræða stærsta frumútboð ársins en samkvæmt útboðinu er markaðsvirði Arm um 54 milljarðar Bandaríkjadala sem samsvarar rúmlega 7,3 þúsund milljörðum íslenskra króna.
Tilboðsbókinni var lokað í gær en endanlegt verð í bréfin verður ákveðið í dag. Samkvæmt skráningarlýsingu er verðbilið á hverjum hlut á milli 47 til 51 Bandaríkjadala.
Heimildarmenn The Wall Street Journal telja hins vegar líklegt verði verðið fært upp.
Ákvörðun Arm „spark í andlitið“
Fjárfestingasjóðurinn Softbank á allt hlutafé fyrirtækisins og stefnir að því að halda 90% eignarhlut. Stefnt er að því að útboðið skili um 5 milljörðum dala til Softbank.
Fjárfestar hafa áhyggjur af því að útboðsgengið gæti reynst of hátt en ef gengið lækkar mikið á fyrstu dögum Arm á markaði gæti það reynst Softbank erfitt að losa fleiri hluti.
Gengi Softbank hefur hækkað um 5,36% síðastliðna fimm daga í aðdraganda útboðsins en sjóðurinn hefur átt gott ár markaði og hefur gengið hækkað um 20% á árinu.
Arm hefur lengi verið vonarstjarna breskra tæknifyrirtækja og finnst mörgum breskum fjárfestum það miður að fyrirtækið hafi ákveðið að skrá sig á Nasdaq í New York fremur en í kauphöllina í Lundúnum.
Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, segir ákvörðunina „spark í andlitið“ á meðan ríkisstjórn Bretlands reynir að blása lífi í fjármálastarfsemi landsins eftir Brexit.