TikTok ætlar að verja 1,3 milljörðum dala árlega í aðgerðir til að vernda notendur sína í Evrópu. Þetta kemur fram í grein hjá Wall Street Journal.

Kínverski samfélagsmiðillinn reynir nú að róa stjórnvöld í álfunni sem hafa mörg hver lýst yfir áhyggjum sínum um að TikTok gæti verið nýtt til að sækja gögn um fólk og deila upplýsingunum með kínversku ríkisstjórninni.

TikTok ætlar að verja 1,3 milljörðum dala árlega í aðgerðir til að vernda notendur sína í Evrópu. Þetta kemur fram í grein hjá Wall Street Journal.

Kínverski samfélagsmiðillinn reynir nú að róa stjórnvöld í álfunni sem hafa mörg hver lýst yfir áhyggjum sínum um að TikTok gæti verið nýtt til að sækja gögn um fólk og deila upplýsingunum með kínversku ríkisstjórninni.

Stjórnendur TikTok kalla aðgerðirnar „Project Clover“. Þær fela meðal annars í sér opnun þriggja gagnavera á Írlandi og í Noregi. Gögn um evrópska notendur TikTok, sem nú eru geymd í gagnaverum í Singapúr og Bandaríkjunum, verða færð yfir í nýju gagnaverin.

Þá segja stjórnendur TikTok að samfélagsmiðillinn sé kominn í samstarf við aðila sem mun fyrr en síðar hefja eftirlit með miðlinum, sérstaklega þegar kemur að meðhöndlun gagna um evrópska notendur.

Stjórnvöld í Bandaríkjunum, Bretlandi og Kanada hafa öll nýlega bannað starfsfólki sínu að vera með smáforritið í tækjum sínum. Þá gaf Evrópuþingið út tilmæli til starfsfólks síns um að eyða forritinu af þeim tækjum sem það notar í vinnunni. Danska þingið hefur gripið til svipaðra aðgerða.

Þessi umræða hefur náð til þingsins hér á landi og staðfesti Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, í samtali við Morgunblaðið nú á dögunum að málið væri til skoðunar hjá skrifstofu Alþingis.