Flugfélagið Play skilaði 3,6 milljóna dala hagnaði á þriðja ársfjórðungi sem samsvarar um 500 milljónum íslenskra króna.
Samkvæmt árshlutauppgjöri félagsins er fjárhagsstaða Play traust og sterkari en á sama tíma í fyrra. Hins vegar er tekið fram að til skoðunar sé engu að síður að auka hlutafé félagsins og eftir atvikum sækja fjármögnun í tengslum við nýtt flugrekstrarleyfi sérstaklega.
Líkt og greint var frá í síðustu viku hefur Play hafið umsóknarferli um flugrekstrarleyfi á Möltu til að greiða fyrir fjölbreyttari starfsemi á vegum félagsins. Flugfélagið reiknar með því að nýja flugrekstrarleyfið verði í höfn næsta vor.
„Play hefur tilkynnt áform sín um að gera grundvallarbreytingar á viðskiptalíkani sínu sem munu draga töluvert úr tengiflugsleiðakerfi félagsins um Keflavíkurflugvöll. Á sama tíma mun félagið efla beint flug til áfangastaða við Miðjarðarhafið og annarra sólaráfangastaða ásamt því að starfrækja u.þ.b. þriðjung af flotanum á vegum annarra aðila. Eftir að hafa náð betri afkomu á nánast öllum mörkuðum á milli ára breyttist sú þróun til hins verra á árinu 2024,“ segir Einar Örn Ólafsson, forstjóri Play, í uppgjörinu.
Samkvæmt nýbirtu uppgjöri félagsins flutti flugfélagið 521 þúsund farþega á þriðja ársfjórðungi 2024 og sætanýting var 89%.
„Sætanýting jókst og hliðartekjur voru stöðugar á þriðja ársfjórðungi en sætaframboð dróst hins vegar saman um 5% og tekjur af meðalflugfargjaldi drógust saman um 9% vegna aukinnar samkeppni á flugi yfir Atlantshafið. Fyrir vikið drógust heildartekjur á þriðja ársfjórðungi þessa árs saman um 8,8% frá því í fyrra, eða úr 110,2 milljónum bandaríkjadala í 100,5 milljónir bandaríkjadala,” segir í uppgjörinu.
Lausafjárstaða félagsins var 39,8 milljónir bandaríkjadala við lok ársfjórðungsins og hefur því aukist um 0,6 milljónir bandaríkjadala á milli ára.
Kostnaður á hvern sætiskílómetra (CASK) var áfram 5,3 bandaríkjasent en kostnaður á hvern sætiskílómetra að undanskildu eldsneyti (CASK ex-fuel) var 3,5 bandaríkjasent sem er aukning frá 3,4 bandaríkjasentum vegna aukins framboðs og launakostnaðar.
Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði og skatta (EBIT) var 9,6 milljónir bandaríkjadala, 3,7 milljónum lægri en á þriðja ársfjórðungi 2023, sem flugfélagið segir að megi rekja til aukinnar samkeppni á flugi yfir Atlantshafið.
Sú samkeppni er meðal þess sem olli því að flugfélagið ákvað að gera breytingar á viðskiptalíkani sínu en rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði og skatta (EBIT) var 9,6 milljónir bandaríkjadala, 3,7 milljónum lægri en á þriðja ársfjórðungi 2023, sem má rekja til aukinnar samkeppni á flugi yfir Atlantshafið.
„Framboð á flugi yfir Atlantshafið jókst til muna í sumar með aukinni samkeppni og því seldust sæti á lægra verði en ella sem hafði áhrif á tekjur á hvern framboðinn sætiskílómetra á þessum hluta leiðakerfisins. Þótt greiningar okkar gefi til kynna að framboðsaukning á árinu 2025 verði ekki hliðstæð hefur PLAY ákveðið að þessi hluti leiðakerfisins sé ólíklegur til að skila nægilegum hagnaði í framtíðinni með núverandi fyrirkomulagi,“ segir Einar.
Einar bendir á að á sama tíma hafi beint flug til sólaráfangastaða verið arðbært frá upphafi.
„Hlutfallslegur hagnaður hefur verið stöðugur þrátt fyrir aukið framboð og engin ástæða til að halda að breyting verði þar á. Breytingarnar sem við kynnum núna eru því augljós sókn í fyrirliggjandi tækifæri. Félagið telur að með því að draga umtalsvert úr tengiflugsleiðarkerfinu, sér í lagi yfir vetrarmánuðina, séu tækifæri til að ná þar algjörum viðsnúningi á afkomu. Umrætt sólarlandaflug, ásamt smækkaðri útgáfu tengiflugsleiðakerfisins, stendur ekki undir framleiðslugetu allra tíu véla PLAY. Þess vegna hefur félagið ákveðið að starfrækja hluta flugvélaflotans fyrir aðra aðila í gegnum nýtt maltneskt flugrekstrarleyfi sem gert er ráð fyrir að verði frágengið í vor,“ segir Einar.
Gengið aldrei lægra
Hlutabréfaverð Play lækkaði um 6% í örviðskiptum í Kauphöllinni í dag og var dagslokagengið 0,94 krónur.
Gengi Play hefur aldrei verið lægra eftir um 50% lækkun síðastliðinn mánuð og um 88% það sem af er ári.
Play boðaði í síðustu viku grundvallarbreytingu á viðskiptalíkani sínu frá og með miðju næsta ári.
Breytingin felur í sér að áfangastöðum í Norður-Ameríku og Norður-Evrópu verður fækkað frá og með miðju næsta ári.
Á hinn bóginn verður áætlun félagsins til Suður-Evrópu efld. Í tilkynningu flugfélagsins er bent á að bein flug til áfangastaða félagsins í Suður-Evrópu hafi verið arðbær frá upphafi.
Meðfram nýju viðskiptalíkani hefur Play hafið umsóknarferli um flugrekstrarleyfi á Möltu til að greiða fyrir fjölbreyttari starfsemi á vegum félagsins. Reiknar félagið með því að nýja flugrekstrarleyfið verði í höfn næsta vor.
Þannig er stefnt að því að fyrsta vél Play sem færð verður yfir á nýtt flugrekstrarleyfi verði staðsett á Tenerife og muni þaðan meðal annars fljúga til Keflavíkur og Akureyrar.
Hægt er að fylgjast með fjárfestafundi félagsins sem hófst klukkan 16:00 hér.