Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir Seðlabankann vera að ná tökum á þeim verðbólgumyndandi þáttum sem bankinn geti haft stjórn á, framhaldið ráðist á vinnumarkaði.
„Í mínum huga hafa einkum þrír þættir verið að þrýsta verðbólgunni upp undanfarið. Í fyrsta lagi er það gengislækkunin, sem mun fjara út úr vísitölunni á næstu mánuðum. Þá eru það verðhækkanir á fasteignamarkaði, sem ég tel að hafi náð hámarki og að áhrif þeirra muni fara dvínandi þegar líður á haustið. Loks eru það hrávöruverðshækkanirnar, sem ég tel að séu líka að fara að ganga til baka. Ég tel að þessir þrír þættir muni snúast og það verði til þess að verðbólga gangi niður nú á haustmánuðum. Þá stöndum við frammi fyrir hinum sígildu íslensku verðbólguhvötum - á borð við launahækkanirnar, lausgirta ríkisfjármálastefnu og annað þess háttar. Það mun skipta miklu að næstu kjarasamningar tryggi verðstöðugleika og jafnframt að ríkið haldi sig hlés um leið og farsóttin er gengin yfir. Að öðrum kosti er það erfitt fyrir Seðlabankann að ætla að færa þjóðinni verðstöðugleika - sérstaklega ef vinnumarkaðurinn gengur í öfuga átt. Við getum ekki annað gert en að bregðast við stöðunni á hverjum tíma - og þá beita peningastefnunni sem okkur er boðið samkvæmt lögum," segir Ásgeir.
- Sjá einnig: Vilja fyrirbyggja bólu
Verkalýðshreyfingin hefur ítrekað kallað eftir banni á verðtryggðum lánum. Ásgeir sér ekki tilgang í því, verkalýðshreyfingin ætti frekar að leggja lóð á vogarskálarnar við að tryggja stöðugt verðlag.
„Verðtryggð lán komu til sögunnar vegna þess að við réðum ekki við verðbólguna. Verðtrygging lána var í raun eina leiðin til þess að fólk gæti tekið langtímalán. Ég vona að við séum að komast á þann stað núna að sá árangur sem við höfum náð í baráttunni við verðbólgu leiði til þess að nafnvaxtalán geti tekið við. Ég sé fyrir mér að þetta verði ferli sem gerist með náttúrulegum hætti, ekki vegna þess að fólki sé bannað að taka verðtryggð lán, heldur vegna þess að það kemur betra lánaform en áður hafa boðist. Ég sé því ekki alveg tilganginn með því að banna lánin. Ég vildi heldur sjá verkalýðshreyfinguna vinna með Seðlabankanum að því að tryggja stöðugt verðlag, þá þurfum við ekki að hugsa neitt meira um verðtryggingu."
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .