Donald Trump Bandaríkjaforseti segir að stjórnvöld þar í landi hyggist tilkynna mörgum viðskiptalöndum sínum um álagningu tolla upp á 70% fyrir 9. júlí.

Trump tjáði blaðamönnum að ný álagningarhlutföll tolla taki gildi í byrjun næsta mánaðar. „Þau munu byrja að borga 1. ágúst.“

Trump tilkynnti þann 9. apríl síðastliðinn um að hann myndi fresta gildistöku tolla á flest viðskiptalönd Bandaríkjanna, sem hann hafði tilkynnt um nokkrum dögum áður, í 90 daga. Forsetinn veitti frest til að ljúka samningsviðræðum fyrir 9. júlí, eða á miðvikudaginn næsta.

„Við munum byrja að senda bréf til ýmissa landa frá og með morgundeginum,“ hefur WSJ eftir Trump. „Við munum líklega senda út 10 eða 12 [bréf] á morgun, og fleiri á næstu dögum. Ég held að þann 9. júlí verðum við búin að tilkynna þeim öllum, og [tollarnir] verða kannski á bilinu 60-70% og 10-20%.“

Efra bilið sem Trump nefndi yrði hærra en nær öll hlutföll sem hann hafði áður tilkynnt um. Að Kína undanskildu voru hæstu tollarnir á einstök lönd sem Trump tilkynnti um þann 2. apríl sl. 50%.