Marel hefur borist óskuldbindandi viljayfirlýsing varðandi mögulegt tilboð í öll hlutabréf í félaginu. Þetta kemur fram í Kauphallartilkynningu Marels í morgun.
„Í viljayfirlýsingunni kemur skýrt fram að ekki sé um að ræða lagalega bindandi skuldbindingu og að verði valkvætt yfirtökutilboð lagt fram á síðari stigum, yrði slíkt tilboð háð margvíslegum skilyrðum. Viljayfirlýsingunni fylgdi óafturkallanleg yfirlýsing Eyris Invest hf., eiganda 24,7% hlutafjár í Marel, um samþykki Eyris Invest hf. verði tilboð lagt fram í tengslum við viljayfirlýsinguna,“ segir í tilkynningunni.
Samkvæmt Marel mun félagið fara yfir og meta framangreinda óskuldbindandi viljayfirlýsingu af kostgæfni með hliðsjón af langtímahagsmunum félagsins og allra hluthafa þess. „Ekki liggur fyrir nein vissa um hvort umrædd yfirlýsing muni leiða til formlegs skuldbindandi yfirtökutilboðs, eða skilmála þess,“ segir í tilkynningu sem barst í nótt.
Í byrjun mánaðar var greint frá því að Árni Oddur Þórðarson væri að stíga til hliðar sem forstjóri Marel eftir að Arion Banki leysti til sín hlutabréf Árna í Eyri Invest, leiðandi fjárfestis í Marel.
Árni Oddur átti 18% hlut í Eyri Invest en eftir innlausn bankans á hann 13%. Arion banki leysti til sín tæplega 4,4% eignarhlut Þórðar Magnússonar í Eyri Invest í tengslum við veðkall sem var gert á Árna.
Eignarhlutur Þórðar í Eyri minnkaði úr 20,7% í 16,2% við veðkallið. Þórður, sem lét af störfum sem stjórnarformaður Eyris í vor, er eftir sem áður stærsti hluthafi fjárfestingarfélagsins. Feðgarnir eiga nú samtals um 29% hlut í Eyri.
Hlutabréfaverð Marel hefur verið að mikillli niðurleið í ár en bréfin tóku dýfu í maí þegar uppgjör fyrsta ársfjórðungs var birt.
Gengið fór undir 500 krónur og féll um 17,6% á einum degi. Markaðsvirði Marel féll um 80 milljarða króna sama dag.
Hlutabréf í Marel hafa lækkað um tæp 30% í ár og fór gengið lægst í 327 krónur um miðjan mánuð en gengið hafði þá ekki veirð lægra síðan í janúar 2018.
Dagslokagengið í gær var 350 krónur.