Fljótt á litið virðist tillagan vera í takti við þau sjónarmið og áherslur sem sjóðirnir hafa haft frá fyrstu metrum málsins varðandi verðlagningu HFF bréfanna,“ segir Davíð Rúdólfsson, framkvæmdastjóri Gildis lífeyrissjóðs, um fyrstu viðbrögð um tillögur um uppgjör HFF-bréfa ÍL-sjóðs.

Í morgun var tilkynnt um að viðræðunefnd fjármálaráðherra og ráðgjafar 18 lífeyrissjóða hefðu saman mótað tillögur um uppgjör HFF-bréfa sem muni greiða fyrir slitum ÍL-sjóðs. Virði HFF-bréfanna í uppgjörinu er metið 651 milljarður króna og er m.a. lagt til að ríkissjóður gefi út og afhendi kröfuhöfum ríkisskuldabréf að andvirði 540 milljarða króna.

Áformað er að boðað verði til fundar skuldabréfaeigenda sem verði að óbreyttu haldinn 10. apríl næstkomandi. Þar verða tillögurnar lagðar fyrir skuldabréfaeigendur en þörf er á samþykki 75% kröfuhafa svo að hún hljóti brautargengi.

Fulltrúar frá LOGOS og Arctica Finance, sem hafa leitt viðræður við fjármálaráðuneytið fyrir hönd lífeyrissjóðanna, kynntu tillöguna fyrir sjóðunum í morgun. Spurður hvort hann telji almenna sátt ríkja um tillöguna, svarar Davíð að það sé ekki sitt að segja til um það.

„Hver og einn sjóður er núna kominn með allar forsendur til þess að leggja mat á þessa tillögu. Ég held að það sé mikilvægt að ráðgjafar sjóðanna treystu sér til þess að leggja hana fram. Eftirleikurinn núna er fyrst og fremst í höndum hvers og eins lífeyrissjóðs og annarra skuldabréfaeigenda.

Við hjá Gildi eigum eins og aðrir sjóðir eftir að leggjast yfir þetta og taka afstöðu til málsins. Þetta eru nokkuð flókin og umfangsmikil viðskipti og það er stórt og mikið safn af skuldabréfum og öðrum eignum sem lagt er upp með að verði afhent í staðinn fyrir HFF-bréfin. Eigendur HFF bréfanna munu því þurfa tíma til að taka afstöðu til málsins.“

Hann telur jákvætt að lagt sé upp með að afhenda lífeyrissjóðunum eðlislíkar eignir, sem eru að megninu til verðtryggð löng ríkisskuldabréf. Hvað varðar möguleg áhrif uppgjörsins á eignasafn sjóðanna, þá geti það verið mismunandi eftir sjóðum. Hver og einn sjóður, sem og aðrir skuldabréfaeigendur, þurfi því að taka upplýsta ákvörðun.

Margt hefur gengið á frá því að Bjarni Benediktsson, þáverandi fjármálaráðherra kynnti fyrst skýrslu og hugmyndir um slit og uppgjör ÍL-sjóðs í október 2022. Í stuttu máli lögðust lífeyrissjóðir gegn áformum fjármálaráðherra með afgerandi hætti þar sem þeir töldu að ekki væri komið til móts við kröfur um fullar efndir af hálfu ríkisins. Sjóðirnir höfnuðu þannig fyrst um sinn að ganga til viðræðna um uppgjör HFF-bréfanna.

Spurður hvort hann líti svo á að lífeyrissjóðirnir hafi náð sínu fram, segir Davíð að tillagan virðist fljótt á litið endurspegla sjónarmið og áherslur sjóðanna frá upphafi hvað varðar verðlagningu í uppgjörinu.

„Að sama skapi sé þessi tillaga alls ekki í samræmi við það sem fyrrverandi fjármálaráðherra fór af stað með fyrir tveimur og hálfu ári síðan.“

Í lok febrúar 2024 dró til tíðinda þegar 18 lífeyrissjóðir samþykktu að hefja formlegar viðræður við fjármálaráðuneytið um uppgjör á skuldum ÍL-sjóðs. Viðræðurnar hafa því staðið yfir í heilt ár en á þessu tímabili fóru fram þingkosningar og tvívegis urðu ráðherraskipti í fjármálaráðuneytinu.

„Tíðar ráðherrabreytingar, stjórnarslit og fleira hefur kannski orðið þess valdandi að viðræðurnar tóku þetta langan tíma. Ég veit að það er búið að vera mikið um fundarhöld og heilmikill tími hefur farið í að ná þessu saman sem var kynnt í morgun. Ég var mjög ánægður að sjá að þessi vinna myndi a.m.k. leiða til þeirrar niðurstöðu að það yrðu tillögur kynntar um mögulegt uppgjör.“

Frá því að Bjarni kynnti fyrst hugmyndir um uppgjör skulda ÍL-sjóðs hafa verið nefndar hugmyndir um að ríkið gæti boðið annarskonar eignir en skuldabréf, t.d. hlutabréf í bönkunum, í skiptum fyrir Íbúðabréfin. Aðspurður segist Davíð telja að alls konar hugmyndir hafi verið viðraðar í ferlinu.

„En sjóðirnir hafa frá upphafi málsins lagt áherslu á að þetta þyrftu að vera eðlislíkar eignir með svipaða tímalengd og verðlagningin þyrfti líka að vera í takt við þeirra sjónarmið um fullar efndir. Fljótt á litið virðist tillagan taka mið af því sem lagt var upp með af hálfu lífeyrissjóðanna.“