Tilnefningarnefnd Íslandsbanka og valnefnd Bankasýslu ríkisins hafa lagt til að Agnar Tómas Möller, fyrrum sjóðsstjóri hjá Kviku eignastýringu, og Valgerður H. Skúladóttir, stofnandi og framkvæmdastjóri Sensa, verði auk fimm sitjandi stjórnarmanna kjörin í stjórnina á aðalfundi bankans þann 16 mars.
Í stjórn Íslandsbanka sitja sjö einstaklingar. Af þeim tilnefnir þriggja manna valnefnd Bankasýslu ríkisins þrjá stjórnarmenn, í samræmi við 42,5% eignarhlut ríkisins í bankanum. Bankasýslan tilnefnir eftirtalda einstaklinga:
- Guðrún Þorgeirsdóttir, varaformaður stjórnar
- Anna Þórðardóttir, sitjandi stjórnarmaður
- Agnar Tómas Möller
Tilnefningarnefnd bankans leggur til að auk þeirra sem Bankasýslan tilnefndi verði eftirtalin kjörin í stjórn bankans:
- Finnur Árnason, stjórnarformaður
- Ari Daníelsson, sitjandi stjórnarmaður
- Frosti Ólafsson, sitjandi stjórnarmaður
- Valgerður H. Skúladóttir
Tilnefningarnefndin, í samráði við Bankasýsluna, leggur jafnframt til að Finnur verði endurkjörinn formaður stjórnar. Þá leggur nefndin til að Páll Grétar Steingrímsson verði kjörin varamaður í stjórn.
Í tilnefningarnefnd Íslandsbanka sitja Finnur Árnason, Tómas Már Sigurðsson og Helga Valfells, sem er formaður nefndarinnar.
Auk framangreindra sitjandi stjórnarmanna sitja þær Herdís Gunnarsdóttir og Tanja Zharov í stjórn bankans. Bankaráð hefur tilnefnt Herdísi sem varamann í stjórn. Herdís, sem hefur verið varamaður í stjórn bankans frá árinu 2016, tók sæti í stjórninni í október í kjölfar þess að Heiðrún Jónsdóttur sagði sig úr henni eftir að hafa verið ráðin framkvæmdastjóri SFF.
Ekki er tekið fram í skýrslu nefndarinnar hversu mörg framboð bárust henni.