Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, tilkynnti í gær að hann muni undirrita forsetatilskipun sem miðar að því að lækka verð á lyfseðilsskyldum lyfjum í landinu.
Tilskipunin felur í sér innleiðingu svokallaðrar Most Favored Nation stefnu, sem tryggir að Bandaríkin greiði ekki hærra verð fyrir lyf en þau ríki sem greiða lægst.
Stefnan byggir á því að Bandaríkin bindi verð á lyfjum við það sem önnur þróuð ríki greiða fyrir sambærileg lyf. Margar þjóðir, einkum með opinber heilbrigðiskerfi, ná fram lægra verði með samræmdum samningum.
Trump greindi ekki nánar frá því hvort tilskipunin næði til Medicare, Medicaid eða beggja opinberra tryggingakerfa, en hann sagðist ætla að undirrita hana strax næsta dag.
Lyfjakostnaður í Bandaríkjunum hefur lengi verið umtalsvert hærri en víða annars staðar.
Samkvæmt upplýsingum frá bandaríska heilbrigðisrannsóknarsjóðnum KFF kostaði mánaðarbirgðir af sykursýkislyfinu Jardiance 611 dali árið 2024. Til samanburðar var verðið 70 dalir í Sviss og 35 dalir í Japan.
Pharmaceutical Research and Manufacturers of America (PhRMA), sem eru hagsmunasamtök stærstu lyfjaframleiðenda heims, mótmæla fyrirhugaðri stefnu harðlega.
„Verðstýring stjórnvalda, í hvaða mynd sem er, er skaðleg bandarískum sjúklingum,“ sagði Alex Schriver, aðstoðarforstjóri samtakanna.
„Á tímum aukinnar samkeppni frá Kína ættu stjórnvöld að bæta veikleika eigin kerfis í stað þess að flytja inn misheppnaðar hugmyndir erlendis frá.“
„Samkeppnisstaða Alvotech verður enn sterk“
Róbert Wessman, stjórnarformaður og forstjóri Alvotech, segir fyrirhugaða breytingu ólíklega til að hafa teljandi áhrif á Alvotech, miðað við það sem kynnt hefur verið um tilskipunina.
Þrátt fyrir að Trump hafi boðað þessar breytingar í gær verða frumlyf alltaf mun dýrari kostur en sambærilegar hliðstæður.
„Samkeppnisstaða Alvotech verður því enn sterk þótt verð á frumlyfjum lækki eitthvað,“ segir Róbert.
Róbert bendir á að um 90% af lyfjum sem seld eru í Bandaríkjunum árlega séu samheitalyf eða líftæknilyfjahliðstæður, en verðmæti þeirra er aðeins 10% af heildarsölu á lyfjamarkaðnum og söluverðmæti frumlyfjanna 90%.
Um 45% af söluverðmæti lyfja í heiminum í heild er á Bandaríkjamarkaði, en íbúar Bandaríkjanna eru aðeins 4% af mannkyninu.
Bandaríkjamenn borga þannig miklu meira fyrir lyf en t.d. Evrópubúar og aðrar þjóðir og verðmunur á frumlyfjum í Bandaríkjunum og samheitalyfjum eða hliðstæðum er gríðarlegur.
„Ef þessar tillögur Trump raungerast ættum við líka að sjá verð frumlyfjanna hækka í Evrópu og öðrum löndum utan Bandaríkjanna. Það bætir samkeppnisstöðu okkar utan Bandaríkjanna enn frekar, því hliðstæður verða þá enn hagstæðari kostur en áður.“
Róbert segir Alvotech með samninga um sölu við sterka markaðsaðila í 90 löndum. „Við horfum því á heiminn í heild sem markaðssvæði.“
Að hans sögn á eftir að koma í ljós hvort tilskipun Trumps muni ná einhverjum árangri en líklegast krefst þessi ákvörðun lagabreytinga.
„Trump boðaði sambærilegar breytingar árið 2018 en þær áætlanir runnu út í sandinn. Þær breytingar sem stjórn Biden gerði í lok síðasta árs, sem áttu að lækka innkaupsverð Medicare á frumlyfjum, höfðu einnig engin áhrif á verð á hliðstæðum. Það á því eftir að taka langan tíma að koma í ljós hvort þetta komist á það stig að hafa einhver áhrif á lyfjaverð,“ segir Róbert.
Tilraun Trump til að ná utan um lyfjaverð árið 2018 var stöðvuð með dómsúrskurði vegna formgalla og síðar lögð til hliðar af Biden-stjórninni.
Nýleg frumvarpsdrög í þinginu höfðu gert ráð fyrir innleiðingu MFN-reglunnar innan Medicaid, en mikil mótstaða iðnaðarins hefur orðið til þess að ákvæðið verður að öllum líkindum ekki hluti af væntanlegum lagapakka um skattamál.
Trump gaf í skyn í gær að hann hygðist ekki láta undan þrýstingi.
„Í mörg ár héldu lyfjafyrirtækin því fram að rannsóknar- og þróunarkostnaður réttlætti háan lyfjakostnað – og að þessi byrði væri með öllu borin af „fávitum“ Bandaríkjanna,“ skrifaði forsetinn á Truth Social.
„Framlög í kosningabaráttur stjórnmálamanna geta gert kraftaverk, en ekki hjá mér og ekki hjá Repúblikanaflokknum. Við ætlum að gera það rétta, eitthvað sem Demókratar hafa barist fyrir árum saman.“