Donald Trump, for­seti Bandaríkjanna, til­kynnti í gær að hann muni undir­rita for­seta­til­skipun sem miðar að því að lækka verð á lyf­seðils­skyldum lyfjum í landinu.

Til­skipunin felur í sér inn­leiðingu svo­kallaðrar Most Favor­ed Nation stefnu, sem tryggir að Bandaríkin greiði ekki hærra verð fyrir lyf en þau ríki sem greiða lægst.

Stefnan byggir á því að Bandaríkin bindi verð á lyfjum við það sem önnur þróuð ríki greiða fyrir sam­bæri­leg lyf. Margar þjóðir, einkum með opin­ber heil­brigðis­kerfi, ná fram lægra verði með samræmdum samningum.

Trump greindi ekki nánar frá því hvort til­skipunin næði til Medi­care, Medi­ca­id eða beggja opin­berra trygginga­kerfa, en hann sagðist ætla að undir­rita hana strax næsta dag.

Lyfja­kostnaður í Bandaríkjunum hefur lengi verið um­tals­vert hærri en víða annars staðar.

Sam­kvæmt upp­lýsingum frá bandaríska heil­brigðis­rannsóknar­sjóðnum KFF kostaði mánaðar­birgðir af sykursýkis­lyfinu Jar­diance 611 dali árið 2024. Til saman­burðar var verðið 70 dalir í Sviss og 35 dalir í Japan.

Pharmaceuti­cal Research and Manufacturers of America (PhRMA), sem eru hags­muna­samtök stærstu lyfja­fram­leiðenda heims, mót­mæla fyrir­hugaðri stefnu harð­lega.

„Verðstýring stjórn­valda, í hvaða mynd sem er, er skað­leg bandarískum sjúklingum,“ sagði Alex Schriver, að­stoðar­for­stjóri sam­takanna.

„Á tímum aukinnar sam­keppni frá Kína ættu stjórn­völd að bæta veik­leika eigin kerfis í stað þess að flytja inn mis­heppnaðar hug­myndir er­lendis frá.“

„Sam­keppnis­staða Al­vot­ech verður enn sterk“

Róbert Wess­man, stjórnar­for­maður og for­stjóri Al­vot­ech, segir fyrir­hugaða breytingu ólík­lega til að hafa teljandi áhrif á Al­vot­ech, miðað við það sem kynnt hefur verið um til­skipunina.

Þrátt fyrir að Trump hafi boðað þessar breytingar í gær verða frum­lyf alltaf mun dýrari kostur en sam­bæri­legar hliðstæður.

„Sam­keppnis­staða Al­vot­ech verður því enn sterk þótt verð á frum­lyfjum lækki eitt­hvað,“ segir Róbert.

Róbert bendir á að um 90% af lyfjum sem seld eru í Bandaríkjunum ár­lega séu sam­heita­lyf eða líftækni­lyfja­hliðstæður, en verðmæti þeirra er aðeins 10% af heildarsölu á lyfja­markaðnum og sölu­verðmæti frum­lyfjanna 90%.

Um 45% af sölu­verðmæti lyfja í heiminum í heild er á Bandaríkja­markaði, en íbúar Bandaríkjanna eru aðeins 4% af mann­kyninu.

Bandaríkja­menn borga þannig miklu meira fyrir lyf en t.d. Evrópu­búar og aðrar þjóðir og verðmunur á frum­lyfjum í Bandaríkjunum og sam­heita­lyfjum eða hliðstæðum er gríðar­legur.

„Ef þessar til­lögur Trump raun­gerast ættum við líka að sjá verð frum­lyfjanna hækka í Evrópu og öðrum löndum utan Bandaríkjanna. Það bætir sam­keppnis­stöðu okkar utan Bandaríkjanna enn frekar, því hliðstæður verða þá enn hagstæðari kostur en áður.“

Róbert segir Al­vot­ech með samninga um sölu við sterka markaðsaðila í 90 löndum. „Við horfum því á heiminn í heild sem markaðs­svæði.“

Að hans sögn á eftir að koma í ljós hvort til­skipun Trumps muni ná ein­hverjum árangri en lík­legast krefst þessi ákvörðun laga­breytinga.

„Trump boðaði sam­bæri­legar breytingar árið 2018 en þær áætlanir runnu út í sandinn. Þær breytingar sem stjórn Biden gerði í lok síðasta árs, sem áttu að lækka inn­kaups­verð Medi­care á frum­lyfjum, höfðu einnig engin áhrif á verð á hliðstæðum. Það á því eftir að taka langan tíma að koma í ljós hvort þetta komist á það stig að hafa ein­hver áhrif á lyfja­verð,“ segir Róbert.

Til­raun Trump til að ná utan um lyfja­verð árið 2018 var stöðvuð með dómsúr­skurði vegna form­galla og síðar lögð til hliðar af Biden-stjórninni.

Ný­leg frum­varps­drög í þinginu höfðu gert ráð fyrir inn­leiðingu MFN-reglunnar innan Medi­ca­id, en mikil mót­staða iðnaðarins hefur orðið til þess að ákvæðið verður að öllum líkindum ekki hluti af væntan­legum laga­pakka um skatta­mál.

Trump gaf í skyn í gær að hann hygðist ekki láta undan þrýstingi.

„Í mörg ár héldu lyfja­fyrir­tækin því fram að rannsóknar- og þróunar­kostnaður rétt­lætti háan lyfja­kostnað – og að þessi byrði væri með öllu borin af „fávitum“ Bandaríkjanna,“ skrifaði for­setinn á Truth Social.

„Fram­lög í kosninga­baráttur stjórn­mála­manna geta gert krafta­verk, en ekki hjá mér og ekki hjá Repúblikana­flokknum. Við ætlum að gera það rétta, eitt­hvað sem Demókratar hafa barist fyrir árum saman.“