Ísland stökk upp um fimm sæti í árlegri úttekt IMD viðskiptaháskólans í Sviss á samkeppnishæfni ríkja og situr nú í því sextánda. Íslendingar reka þó enn lestina í samanburði við Norðurlöndin, þar sem Danmörk er fremst meðal þjóða. Ísland er þó enn eftirbátur annarra þjóða þegar kemur að erlendri fjárfestingu og alþjóðaviðskiptum. Niðurstöðurnar voru kynntar á fundi Viðskiptaráðs og Arion banka í morgun.

„Síðasta áratug hefur samkeppnisstaða Íslands batnað hægt og bítandi, en fyrir áratug síðan raðaði Ísland sér í 26. sæti. Mestar framfarir hafa orðið í skilvirkni atvinnulífs og samfélagslegum innviðum. Þá hefur skilvirkni hins opinbera batnað lítillega,“ segir í frétt á vef Viðskiptaráðs.

Hvað varðar skilvirkni atvinnulífsins hefur Ísland tekið framförum. Þannig telst viðhorf og gildismat framúrskarandi, þar sem Ísland mælist í fyrsta sæti. Þar telur undirflokkurinn sveigjanleiki og gildismat helst til þar sem Ísland er fremst meðal þjóða. Þar að auki er Ísland í öðru sæti yfir stjórnarhætti fyrirtækja. Þá hefur fjármögnunarumhverfi batnað og Ísland færist þar upp um 8 sæti, upp í það 19. Aftur á móti er viðskiptaumhverfið aðeins í meðallagi aðlaðandi fyrir erlent starfsfólk, þar sem Ísland skipar 34. sæti.

Helstu framfarirnar hjá hinu opinbera eru meðal regluverks atvinnulífs en þar færist Ísland úr 21. sæti í það 14. Ísland er í þriðja sæti yfir samkeppnishæfustu samfélagslegu umgjörðina og fór upp um sex sæti á milli ára. Opinber fjármál og skattastefna hins opinbera draga þó verulega úr samkeppnishæfni og haldast sætin þar óbreytt á milli ára, eða 24. og 35. sæti.

Mynd tekin frá Viðskiptaráði Íslands.

Veruleg afturför í alþjóðaviðskiptum

Úttektin leiðir hins vegar í ljós að Ísland er enn eftirbátur annarra þróaðra ríkja þegar kemur að efnahagslegri frammistöðu, sér í lagi hvað varðar erlenda fjárfestingu og alþjóðaviðskipti. Þar er Ísland 28 og 30 sætum neðar en meðaltal Norðurlandanna.

Viðskiptaráð bendir á bæði þessi atriði hafi þróast til verri vegar hér á landi undanfarin áratug. Það bendi til þess að „tiltrú umheimsins á íslenska hagkerfinu fari dvínandi“.

Á mælikvarða yfir beina erlenda fjárfestingu til landsins sem hlutfall af landsframleiðslu skiptar Ísland 61. sæti af 63 í úttektinni. Heilt yfir færist Ísland úr 55. sæti í það 58. hvað alþjóðaviðskipti snertir en fer úr 52. í 49. sæti varðandi alþjóðlega fjárfestingu á milli ára.