Viðskiptaráð hvetur Alþingi til að samþykkja hallalaus fjárlög en samkvæmt fjármálaáætlun Alþingis verður það ekki gert fyrr en árið 2028.
Í umsögn Viðskiptaráðs við fjárlagafrumvarpi Sigurðar Inga Jóhannssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, eru lagðar fram tillögur um hvernig megi leysa þennan hallarekstur ríkisins.
Íslenska ríkið gerir ráð fyrir að reka sig með halla sem nemur um 41 milljarði króna á næsta ári en það árið verður jafnframt sjöunda árið í röð sem ríkissjóður er rekinn með halla. Þetta á sér stað samhliða því að tekjuvöxtur samhliða uppgangi í hagkerfinu hefur verið mikill hérlendis.
„Hallarekstur ríkissjóðs eykur verðbólguþrýsting og hamlar lækkun vaxta, heimilum og fyrirtækjum til óheilla. Viðskiptaráð fagnar því að aðhaldsstig ríkisfjármála fari vaxandi. En betur má ef duga skal. Að mati ráðsins er tímabært að stjórnvöld leggi fram hallalaus fjárlög. Lokun fjárlagagatsins leiðir til minni verðbólgu og lægri vaxtabyrði fyrir heimili, fyrirtæki og ríkissjóð.”
Viðskiptaráð leggur til að fjárlagagatinu verði lokað með tiltekt í útgjöldum en illa hefur gengið að þeirra mati að vinda ofan af útgjaldaaukningu sem stofnað var til í heimsfaraldri og skattar hér á landi eru þegar háir í alþjóðlegum samanburði.
Viðskiptaráð bendir jafnframt á að verðbólga undanfarinna ára hefur virkað sem viðbótarskattur í raun sem rýrir verðgildi tekna og eigna Íslendinga. „Svigrúm til skattahækkana er því takmarkað,” segir í umsögn ráðsins.
Viðskiptaráð leggur fram níu tillögur sem loka fjárlagagatinu og bæta afkomu ríkissjóðs um 47,5 milljarða á næsta ári. Tillögurnar draga ekki úr fjárveitingum til mennta-, heilbrigðis- og öldrunarþjónustu, eða almannaöryggis- og samgöngumála.
„Fjárlagagatinu er því lokað með aðhaldi og breyttri umgjörð á öðrum sviðum. Þannig verður ríkissjóður rekinn með 6,5 milljarða króna afgangi í stað 41 milljarðs króna halla nái tillögurnar fram að ganga,” segir í umsögninni.
Hægt er að lesa tillögur Viðskiptaráðs hér.