Á tímabilinu mars 2022 - apríl 2023 hefur verðlagsnefnd búvöru hækkað heildsöluverð um 16,2%. Á sama tíma hefur vísitala neysluverðs hækkað um 11,3% og vísitala matar og drykkjar, sem inniheldur meðal annars mjólkurvörur, hækkað um 14%.

Heildsöluverð mjólkurvara er það verð sem MS selur vörurnar til smásöluverslana. Álagning verslananna er síðan frjáls og því getur verð á mjólkurafurðum verið breytilegt á milli verslana hérlendis.

Ásta S. Fjeldsted, forstjóri Festi, segir það tímaskekkju að ríkið sé að ákveða afurðaverð til búvöruframleiðenda og verð á vörum á samkeppnismarkaði.

„Mér fyndist eðlilegra að starfækja heilbrigðan samkeppnismarkað í þessum matvælaflokki eins og öðrum. Við eigum að leyfa markaðnum að þroskast og ekki ríghalda í ríkisstýringu sem varð til á tímum þegar fólk var enn hrætt við alþjóðlega samkeppni. Samkeppni sem við erum í núna - á langflestum mörkuðum.“

Hún segir að draga mætti lærdóm af yl- og grænmetisræktun hér á landi.

„Þegar tollar voru afnumdir af innfluttum tómötum, paprikum og öðrum hollustuvörum kom á daginn að Íslendingar héldu áfram að velja íslenskt grænmeti. Íslendingar velja frekar íslenskt ræktaða vöru - sem þeir vita hvaðan kemur. Ég tel að það sama eigi við um mjólkina og ostinn.“

Lítið heyrst frá stjórnvöldum

Ásta segir það skjóta skökku við að ríkisvaldið skjóti á verslanir fyrir að gera ekki nóg til að sporna gegn verðbólgu á sama tíma og verðlagsnefnd búvöru starfi í skjóli ríkisins. Hún bætir við að lítið hafi heyrst frá stjórnvöldum varðandi mögulegar skattalækkanir sem gætu stuðlað að lægra vöruverði.

„Ég hef ekki orðið vör við mikla umræðu hjá stjórnmálamönnum um að t.d. lækka virðisaukaskatt á matvæli sem leggst beint á kostnaðarverð vara - þó ekki væri nema tímabundið. Rétt eins og með aðra prósentuskatta hefur virðisaukaskatturinn hækkað í krónutölu í takt við aukna veltu og er ríkið þar með að auka skatttekjur sínar í gegnum þennan skatt sem hefur bein áhrif á kostnaðarverð vara. Svo er hægt að líta til annarra vöruflokka eins og bensíns þar sem ríkið tekur um 50% af því sem neytandinn borgar.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kom út í morgun. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.