Meðaltekjur 50 tekjuhæstu einstaklinga landsins – samkvæmt nýútkomnu Tekjublaði Frjálsrar verslunar – námu rétt tæpum 11 milljónum króna á mánuði í fyrra, samanborið við 8,3 milljónir árið 2018, en Skatturinn birti ekki álagnigaskrár einstaklinga í fyrra.
Lykilstarfsmenn Marels skipa stóran sess á topplistanum, en alls voru 6 stjórnendur þar, að Árna Oddi forstjóra meðtöldum, með yfir 10 milljónir í mánaðartekjur.
Sé listinn skoðaður eftir flokkum eru meðaltekjur efstu 50 hæst hjá forstjórum, 7,8 milljónir og hækka um 14% milli blaða, en næstráðendur verma annað sætið með 5,8 milljónir mánaðarlega og hækka um heil 49%. Þar eru það þó allra efstu sætin sem draga töluna vel upp, því miðgildi tekna sama hóps er „aðeins“ 3,7 milljónir og hækkar um nokkuð hófleg 8,7% á árunum tveimur milli blaða.
Þriðju hæstu meðaltekjur höfðu efstu 50 starfsmenn fjármálafyrirtækja, sem fengu 3,9 milljónir að meðaltali á mánuði í sinn hlut í fyrra, sem þó er aðeins 2,7% hækkun milli blaða.
Fyrir utan stjarnfræðilega hækkun meðaltekna næstráðenda hækkuðu efstu embættismenn og forstjórar ríkisfyrirtækja hlutfallslega mest, um 17% milli Tekjublaða, og námu 2,2 milljónum króna á mánuði. Miðgildið hækkaði enn meira, um 18,5%, næstmest á eftir forstjórum með 20% hækkun, og nam rúmum 2 milljónum.
Nafnið Grímur með 3,8 milljónir í meðaltekjur
Annað sem fróðlegt er að skipta listanum niður í – þótt slíkt sé kannski sjaldgæfara hjá greinendum en ofangreint – eru nöfn. Algengasta nafnið á listanum með þónokkrum mun, sem eflaust kemur fáum á óvart, er Jón, en meðaltekjur þeirra voru 1.555 þúsund krónur á mánuði.
Tekjuhæsta nafnið sem nær 5 manns er Grímur, með 3,8 milljónir að meðaltali, og þar á eftir koma Viðar með svo til sömu upphæð, og Árni – en þeir eru 49 – með 3,1 milljón. Háar meðaltekjur Árnanna þrátt fyrir nokkurn fjölda ættu þó ekki að koma á óvart, því tekjuhæstu 2 menn blaðsins eru Árni Oddur Þórðarson forstjóri Marel með 36 milljónir og Árni Harðarson forstjóri Salt Investments með 26 milljónir.
Séu miðgildistekjur skoðaðar til að losna við áhrif toppanna trónir Ægir á toppnum. Þeir 5 sem það nafn bera á listanum höfðu að miðgildi 2,4 milljónir króna á mánuði í fyrra, en þar næst koma Heimir og síðan Ásbjörn, báðir með um 2,3 milljónir.
Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:
- Móðurfélagi Coolbet hefur vaxið fiskur um hrygg frá því að félagið gekk frá kaupum á veðmálafyrirtækinu.
- Rætt við Helgu Árnadóttur, framkvæmdastjóra Tulipop um jákvæðan viðsnúning samstæðunnar.
- Kafað ofan í kjaraþróun forstöðumanna hins opinbera.
- Nýlegur dómur felur í sér að unnt er að gera ávinning aðila upptækan þótt viðkomandi hafi ekki brotið gegn lögum.
- Ítarlegt viðtal við Egil Viðarsson, nýjan framkvæmdastjóra verkfræðistofunnar Verkís.
- Afurðir unnar úr sauðamjólk hafa selst eins og heitar lummur við Hengifoss í sumar.
- Rætt við Gunnlaug Braga Björnsson sem nýverið var ráðinn til að stýra samskipta- og miðlunarmálum Viðskiptaráðs.
- Hrafnarnir eru á sínum stað og þá fjallar Týr um Þorgerði Katrínu og sjávarútveginn.
- Þá mætir Óðinn á ný eftir sumarfrí og veltir fyrir sér rekstri Landspítalans og heilbrigðiskerfisins.