Íslenskir stjórnmálaflokkar fengu samtals úthlutað tæplega 10 milljörðum króna úr ríkissjóði, á verðlagi dagsins í dag, á tímabilinu 2010-2024. Sjálfstæðisflokkurinn, sem hefur verið stærsti flokkur landsins á tímabilinu, er sá flokkur sem hefur fengið hæsta úthlutun úr ríkissjóði á tímabilinu, eða alls rúmlega 2,4 milljarða á verðlagi dagsins í dag.
Á ári hverju fá stjórnmálaflokkar úthlutun úr ríkissjóði, en kveðið er á um þetta í lögum um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra. Greiðslur hvers árs eru samkvæmt ákvörðun fjárlaga hverju sinni. Til þess að eiga rétt á framlagi þarf stjórnmálaflokkur að hafa fengið að minnsta kosti einn mann kjörinn á þing eða náð að lágmarki 2,5% atkvæða. Framlagið skiptist svo hlutfallslega milli flokka eftir atkvæðamagni í nýjustu kosningum. Fjármála- og efnahagsráðuneytið fer með framkvæmd greiðslna framlagsins.
Fengið 84 milljónir án þess að sitja á þingi
Sjálfstæðisflokkurinn hefur fengið úthlutað 53% meira en Vinstri græn, sem hafa fengið næsthæstu úthlutunina á tímabilinu, eða alls tæplega 1,6 milljarða. Fast á hæla Vinstri grænna koma Samfylkingin, með 1,5 milljarða króna, og Framsóknarflokkurinn, með rétt tæplega 1,5 milljarða. Aðrir flokkar sem nú sitja á þingi hafa fengið nokkuð lægri úthlutanir. Píratar hafa fengið 718 milljónir króna, Miðflokkurinn 579 milljónir, Viðreisn 536 milljónir og Flokkur fólksins 524 milljónir.
Þá hefur Sósíalistaflokkurinn fengið 84 milljóna króna framlag á yfirstandandi kjörtímabili þrátt fyrir að hafa ekki náð manni inn á þing í síðustu alþingiskosningum, þar sem flokkurinn var með yfir 2,5% atkvæða. Aðrir flokkar sem fallið hafa af þingi fengu einnig úthlutanir á tímabilinu. Borgarahreyfingin fékk úthlutað 151 milljón og Björt framtíð 138 milljónir. Loks fékk Dögun 40 milljónir og Flokkur heimilanna 39 milljónum.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út í fyrramálið. Áskrifendur geta lesið blaðið hér og fréttina í heild hér.