10 af þeim vélbyssum sem Landhelgisgæsla hefur flutt inn frá árinu 2011, sem eru að minnsta kosti 310 talsins, eru af gerðinni Rheinmetall MG 3. Allar byssurnar af þessari gerð eru í vopnageymslu Landhelgisgæslunnar á Keflavíkurflugvelli og hafa ekki enn verið teknar í notkun að því er kemur fram í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni. Ekki kemur fram hvort þær séu ætlaðar til notkunar hjá Landhelgisgæslunni eða lögregluembættum.
Byssurnar eru alsjálfvirkar og voru afhentar Landhelgisgæslunni í júní árið 2013. Rheinmetall MG3 byssurnar voru hannaðar árið 1959, eru notaðar af herjum víða um heim og geta skotið 1.000-1.300 skotum á mínútu. Með byssunum fylgdu 50 kevlar hjálmar og 50 skotheld vesti.
Segja byssurnar vera gjafir
Í tilkynningunni kemur einnig fram að rangt sé að greitt hafi verið fyrir byssurnar, hvort sem voru af tegundinni MP5 eða MG3. Í samningum Landhelgisgæslunnar og norska hersins eru sérstök ákvæði um verð og greiðslur fyrir byssurnar. Verðið er ákveðið 2.500 norskar krónur fyrir hverja MP5 hríðskotabyssu sem skuli greiðast við undirritun samningsins. Samningarnir hafa þó ekki verið undirritaðir þó að vopnin hafi verið afhent. Af þeim er því ekki hægt að ráða hvort greiðsla hafi verið innt af hendi, en Landhelgisgæslan segir svo ekki vera.
Heildarverðmat MP5 hríðskotabyssanna samkvæmt samningunum er því að minnsta kosti 763.750 norskar krónur, sem Landhelgisgæslan fullyrðir að sé um 1/8 hluti af markaðsvirði þeirra. Heildarverðmæti MG3 vélbyssanna er áætlað 30.000 norskar krónur samkvæmt farmflutningsskírteini.