Franski ríkissjóðurinn mun greiða 9,7 milljarða evra, eða sem nemur ríflega 1.350 milljörðum króna, vegna þjóðnýtingar á kjarnorkufyrirtækinu Electricite de France (EDF). Hlutabréf fyrirtækisins hafa hækkað um 15% í dag.
Franska ríkið, sem á þegar 84% hlut í EDF, mun leggja fram yfirtökutilboð í haust. Efnahagsráðuneyti Frakka sagði í dag að tilboðið muni hljóði upp á 12 evrur á hlut, sem er 53% yfir síðasta lokagengi EDF áður en ríkið tilkynnti áformin um þjóðnýtinguna.
Yfirtökutilboð felur einnig í sér að franska ríkið kaupir 60% af víkjandi skuldabréfum sem EDF hefur gefið út en ríkið á hin 40 prósentin.
Sjá einnig: Frakkland að þjóðnýta kjarnorkurisa
„Neyðarástand í loftslagsmálum krefst róttækra ákvarðana. Við þurfum að ná fullri stjórn á framleiðslu og framtíð okkar í orkumálum. Við þurfum að tryggja sjálfstæði okkar, nú þegar við stöndum frammi fyrir afleiðingum stríðsins og risavöxnum áskorunum,“ sagði Élisabeth Borne, forsætisráðherra Frakklands á franska þinginu fyrir tveimur vikum.