Rann­sóknar­setur verslunarinnar (RSV) setti vefsíðuna verdgattin.is, sem gerði neytendum kleift að fylgjast með þróun verð­lags helstu neyslu­vara í stærstu mat­vöru­verslunum landsins, í loftið í júní 2023 á grunni samnings við menningar- og viðskiptaráðuneytið sem lagði 10 milljónir króna í verkefnið.

Rann­sóknar­setur verslunarinnar (RSV) setti vefsíðuna verdgattin.is, sem gerði neytendum kleift að fylgjast með þróun verð­lags helstu neyslu­vara í stærstu mat­vöru­verslunum landsins, í loftið í júní 2023 á grunni samnings við menningar- og viðskiptaráðuneytið sem lagði 10 milljónir króna í verkefnið.

Verð­­gáttin var sögð liður í sam­komu­lagi aðila vinnu­­markaðarins árið 2022 um að fylgjast náið með þróun verð­lags helstu neyslu­vara.

Í júní síðastliðnum birti RSV tilkynningu á heimasíðu sinni þar sem fram kemur að samningurinn við ráðuneytið hafi lokið í árslok 2023.

„Það mætti því segja að Prís hafi tekið við keflinu af Verðgáttinni,“ segir í tilkynningunni en Prís er smáforrit á vegum ASÍ sem fór í loftið í lok síðasta árs. Þar er hægt að skanna strikamerki á vörum og sjá kostnað hennar í fjölda verslana.

Styrktu verðlagseftirlit ASÍ um 15 milljónir

Ríkisstjórnin ákvað á fundi sínum 20. desember 2023 að styrkja verðlagseftirlit ASÍ um 15 milljónir króna vegna átaksverkefnis í verðlagsmálum, sem fólst m.a. í útgáfu Prís smáforritsins.

Auður Alfa Ólafsdóttir, verkefnastjóri verðlagseftirlits ASÍ, segir í samtali við Viðskiptablaðið að Verðgáttin og Prís séu tvö aðskilin verkefni. Aðspurð um það hvort ASÍ hafi notið góðs af þeirri vinnu sem Verðgáttin sinnti áður en Prís fór í loftið segir Auður ekki svo vera.

„Verðgáttin hafði fengið á sig gagnrýni þar sem þar voru fáar vörur og var lítil breyting frá því verðlagseftirliti sem við höfðum sinnt áður. ASÍ hafði ekki haft beina aðkomu að Verðgáttinni og það voru bara einhverjar hundrað vörur þar inni. Við erum að fylgjast með verði á tugþúsundum vara.“

Auður Alfa Ólafsdóttir
Auður Alfa Ólafsdóttir
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Í svari Menningar- og viðskiptaráðuneytisins við fyrirspurn Viðskiptablaðsins um Verðgáttina segir að hlutverk RSV hafi verið að hanna og setja upp gagnagrunn og rafræna gátt sem tók á móti gögnum um vöruverð á tæplega 80 skilgreindum vörum og miðla því inn á síðuna til að neytendur gætu borið saman verð á þeim vörum milli verslana.

Verkefnið hafi staðið yfir í allt það ár eða þar til samningi lauk í lok árs 2023.

Ráðuneytið svarar ekki beint af hverju ákveðið var að endurnýja ekki samningin við RSV en bendir hins vegar á ofangreindan stuðning við átaksverkefni ASÍ.

Umrætt verkefni hafi byggt á umbótastarfi hjá verðlagseftirliti ASÍ sem hófst í apríl 2023 og miðaði að því að fara úr stöðluðum verðkönnunum yfir í heildarsöfnun verðupplýsinga frá smásöluaðilum.

„Um var að ræða mun umfangsmeiri verðtöku og breiðari þekju verðupplýsinga en áður þekktist er varðar fjölda verslana, vörutegunda, tíðni og verðþróun sem og auka upplýsingagjöf um verðlag og verðþróun til neytenda.“

Frá undirritun samstarfssamningsins í febrúar 2023 um matvörugáttina. Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, þáverandi forsætisráðherra, og Sigrún Ösp Sigurjónsdóttir, þáverandi forstöðumaður RSV