Sala á mat hjá breskum veitingastöðum og krám jókst um nærri þriðjung í fyrstu viku verkefnisins „Eat Out to Help Out", að því er segir í frétt Reuters .
Verkefnið felst í því að breska ríkið greiðir 50% af máltíðum á kaffihúsum, veitingastöðum og krám, en þó ekki áfengi. Úrræðið stendur breskum neytendum til boða á mánudögum, þriðjudögum og miðvikudögum en hámarksfjárhæð afsláttarins er 10 pund eða rúmlega 1.800 krónur.
Úrræðið hófst mánudaginn 3. ágúst en salan jókst um 95%-106% fyrstu þrjá daga verkefnisins, samanborið við vikurnar þar á undan, samkvæmt gagnaveitunni CGA. Frá fimmtudegi til sunnudags var salan þó minni en vikuna áður. Í heild jókst salan yfir vikuna um tæpan þriðjung.
Um 10,5 milljónir kröfur höfðu borist embætti ríkisskattstjóra og tollstjóra á Bretlandi (HRMC) vegna verkefnisins. Fjármálaráðuneyti Bretlands sagði meðalupphæð hafa verið 5 pund og því var kostnaður af verkefninu meira en 50 milljónir punda á fyrstu viku þess. Breska ríkið hefur sett 500 milljónir punda til hliðar fyrir verkefnið, samkvæmt frétt BBC .