Skipaflutningarisinn AP Møller-Mærsk mun segja upp tíu þúsund starfsmönnum í hið minnsta á næstu dögum og setja á ráðningarbann á heimsvísu.
Samkvæmt danska viðskiptamiðlinum Børsen hefur Mærsk nú þegar sagt upp 6.500 starfsmönnum á árinu en eftir mikinn tekjusamdrátt á þriðja ársfjórðungi þarf skipafélagið að draga enn frekar úr kostnaði.
„Tekjufallið var viðbúið en nýjar markaðsaðstæður krefjast aðgerða,“ sagði Vincent Clerc, forstjóri Mærsk, á blaðamannafundi í morgun eftir að uppgjör þriðja ársfjórðungs var kynnt.
EBITDA- afkoma Mærsk fór úr 10,9 milljörðum Bandaríkjadala á þriðja ársfjórðungi ársins 2022 í 1,9 milljarða á þessum ársfjórðungi.
Forstjóri Mærsk segir tekjusamdráttinn ekki vera vegna þess að skipafélagið sé að flytja færri gáma heldur vegna þess að flutningsverð sé orðið einstaklega lágt, lægra en það var fyrir Covid- faraldurinn.
„Við þurfum að vera tilbúin í slaginn og að fara í gegnum erfiða tíma,“ sagði Clerc á fundinum.
Í byrjun árs störfuðu 110 þúsund manns hjá Maersk en samkvæmt Børsen voru þeir um 103.500 í nóvember. Eftir yfirvofandi niðurskurð býst Maersk við því að spara um 600 milljónir dala í launakostnað árið 2024.