Nafni hugbúnaðarfyrirtækisins Tix hefur verið breytt í Tixly. Miðasölufyrirtækið, sem annast m.a. miðasölu fyrir menningarhús víða um heim, mun þó nota nafnið Tix áfram hér á landi „enda er það vel þekkt af flestum Íslendingum“, segir í fréttatilkynningu.

Hrefna Sif Jónsdóttir tekur við starfi framkvæmdastjóra af Sindra Má Finnbogasyni, stofnanda Tixly, sem hefur ákveðið að stíga niður. Hann verður nú þróunarstjóri fyrirtækisins og mun einbeita sér alfarið að áframhaldandi framþróun miðasölukerfisins. Hrefna Sif hefur starfað hjá fyrirtækinu frá 2017 en þar áður var hún miðasölustjóri Hörpu. Hún hefur starfað sem rekstrarstjóri Tixly.

Tixly hefur jafnt og þétt fært út kvíarnar alþjóðlega á undanförnum árum og er fyrirtækið nú með starfsemi í níu löndum.

Nýr stjórnarmaður frá Ticketmaster

Auk nýs framkvæmdastjóra hefur Tixly fengið nýjan stjórnarformann, Norðmanninn Kjell Arne Orseth. Hann tekur við stjórnarformennsku Tixly þann 1. nóvember næstkomandi.

Kjell Arne hefur starfað síðustu 17 ár hjá alþjóðlega miðasölurisanum Ticketmaster, síðast sem aðstoðarframkvæmdastjóri yfir Evrópu, Mið-Austurlöndum og Afríku. Innan Ticketmaster samstæðunnar hefur hann einnig starfað sem framkvæmdastjóri yfir starfsemi fyrirtækisins í Noregi, Danmörku, Svíþjóð og Ítalíu.

„Kjell Arne hefur einnig mikla þekkingu og reynslu af bandaríska miðasölumarkaðnum og mun veita stjórnendum Tixly dýrmæta innsýn samhliða sókn fyrirtækisins inn á þennan stóra markað.“

Sindri Már Finnbogason, stofnandi:

„Það er mikill fengur að fá Hrefnu til að stýra Tixly, hún hefur mikla þekkingu á starfsemi félagsins og hefur tekið þátt í hraðri sókn þess á alþjóðlegum vettvangi. Ég tel að hún sé rétta manneskjan til leiða félagið áfram á þeirri braut sem það er á og hjálpa okkur að ná enn meiri árangri í samstarfi við okkar samheldna hóp starfsfólks. Innkoma Kjells Arne mun styðja við áframhaldandi vöxt okkar erlendis enda með gríðarlega reynslu á því sviði sem mun án efa nýtast stjórnendum okkar vel og hjálpa okkur í að ná framtíðarmarkmiðum okkar. Tixly er á hraðri leið fram á við í tækniþróun og hugbúnaðurinn okkar er orðinn mun öflugri en hann var fyrir örfáum árum síðan. Við ætlum að gefa enn frekar í og við það munu skapast ný tækifæri fyrir öfluga forritara sem hafa áhuga á vinna við þróun kerfis sem 8 milljónir miða eru seldir í gegnum árlega.“

Hrefna Sif Jónsdóttir, framkvæmdastjóri:

„Við hjá Tixly viljum skera okkur úr meðal hugbúnaðarfyrirtækja sem þjónusta menningarhús með því að bjóða upp á notendavæna og öfluga vöru með einföldu og skýru viðmóti. Við vildum finna nafn sem skæri sig algjörlega frá hinum á markaðnum og passaði um leið vel við okkar stefnu. Við erum þekkt fyrir að leysa daglegar áskoranir okkar viðskiptavina með skilvirkum og einföldum hætti. Við ætlum okkur að ná enn frekari árangri á þeim mörkuðum sem við störfum á. Okkar markmið er skýrt: að veita bestu mögulegu þjónustu til menningar- og viðburðarhúsa í Evrópu og Norður-Ameríku.“