Tixly, íslenskt hugbúnaðarfyrirtæki sem smíðar miðasölukerfi, hefur samið við Theatre Royal Sydney um notkun hugbúnaðarins. Theatre Royal Sydney, ein af elstu og virtustu menningarstofnunum Ástralíu, mun hefja notkun á hugbúnaði Tixly í júní 2025.

Tixly segir í tilkynningu að samstarfið við leikhúsið marki fyrstu skref fyrirtækisins á ástralskan markað. Þetta skref byggir á samstarfi við móðurfyrirtæki leikhússins, Trafalgar Entertainment sem hófst í Bretlandi árið 2023.

„Hugbúnaður Tixly býður upp á mikinn sveigjanleika og öfluga virkni sem hentar sérstaklega vel fyrir fjölbreytta dagskrá leikhússins, meðal annars stórar uppsetningar á alþjóðlegum söngleikjum ásamt smærri, persónulegum sýningum.“

Til að styðja við stækkunina hefur Tixly ráðið Hayley Dobbs sem rekstrarstjóra fyrir ástralska dótturfélagið. Hayley hefur reynslu í miðasölugeiranum, hafandi unnið í honum í meira en 15 ár í Ástralíu. Hún hóf störf í mars og mun bera ábyrgð á daglegum rekstri og stækkun Tixly á ástralska markaðnum.

„Stækkun Tixly til Ástralíu er stór áfangi í alþjóðlegri vegferð okkar. Theatre Royal Sydney býr yfir fullkominni blöndu af sögulegu mikilvægi ásamt framsækinni nýsköpun sem tengist okkar vegferð að umbreyta miðasöluupplifuninni,“ segir Hrefna Sif Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Tixly.

„Við höfum byggt upp sterkt samstarf við Trafalgar Entertainment í Bretlandi og erum gríðarlega spennt að kynna öflugan og notendavænan hugbúnað okkar á þessum nýja markaði. Þetta skref leyfir okkur að styðja við eina þekktustu menningarstofnun í Ástralíu ásamt því að byggja grunn fyrir frekari vöxt í landinu.“

Theatre Royal Sydney leikhúsið opnað fyrst árið 1833. Árið 2021 var farið í miklar endurbætur og framkvæmdir. Leikhúsið, sem var hannað af hinum þekkta arkitekt Harry Seidler, getur tekið á móti 1.200 gestum og býr yfir nútímalegri hönnun, þar með talið 13 metra háum glerinngangi og áberandi steinsteyptu lofti í forsalnum. Leikhúsið býður upp á fjölbreytta dagskrá, þar með talið stóra söngleiki, leikrit, balletsýningar og tónleika.

Theatre Royal Sydney.
© Aðsend mynd (AÐSEND)