Gróðureldarnir í Los Angeles stefna í að verða dýrustu gróðureldarnir í sögu Bandaríkjanna. Wall Street Journal fjallar um málið í kvöld.

Blaðið ræddi við Jimmy Bhullar hjá JP Morgan sem telur að heildartjónið vegna eldanna nú sé metið á nærri 7.000 milljarða króna, eða 50 milljarða dala, sem er tvöfalt meira en áætlað var í gær.

Þetta innifelur tjón sem tryggingarfélög bæta sem Bhullar áætlar að nemi meira en 2.800 milljörðum króna. Það verður mun meira ef ekki tekst að ná stjórn á eldunum.

Útlitið er svart og á þessari stundu virðist ekkert lát vera á eldunum. Eldarnir geisuðu í dag, þriðja daginn í röð, og eyðilögðu stór svæði í fjölmennasta héraði Bandaríkjanna, þar sem tugþúsundir íbúa þurftu að flýja heimili sín.

Að minnsta kosti fimm stórir eldar loguðu samtímis í kringum Los Angeles, brunnu yfir heilu hverfin og eyðilögðu þúsundir bygginga.

Í hinu vellríka strandhverfi Pacific Palisades hafa eldarnir eyðilagt eða skemmt þúsundir heimila, fyrirtækja og annarra bygginga.

Samkvæmt upplýsingum frá vátryggingamiðlaranum Aon olli gróðureldurinn Camp Fire í Norður-Kaliforníu árið 2018 tryggingartjóni upp á um 1.750 milljarða króna, eða 12,5 milljörðum dala, að teknu tilliti til verðlagsbreytinga.