Tap Sjóvá af vátryggingasamningum fyrir skatta nam 150 milljónum króna á öðrum ársfjórðungi sem er töluverð breyting frá sama tímabili í fyrra þegar félagið hagnaðist um 495 milljónir.
Tap af fjárfestingastarfsemi fyrir skatta nam 317 milljónum sem er ögn betra en á öðrum fjórðungi í fyrra er tapið nam 415 milljónum.
Heildartap Sjóvá á fjórðungnum nam því 434 milljónum króna í samanburði við 69 milljóna tap á sama tímabili í fyrra.
Samsetta hlutfallið yfir 100%
Ávöxtun fjárfestingareigna í stýringu var 0,3% sem er ögn betra en -0,2% í fyrra.
Samsetta hlutfallið, sem er sú stærð sem helst er horft til í tryggingarekstri, nam 101,8% í ár en 93,6% á öðrum fjórðungi í fyrra.
Samsett hlutfall, sýnir hlutfall kostnaðar af iðgjöldum, en um er að ræða aðferð sem sýnir hvernig rekstur vátryggingahluta tryggingafélaga gengur. Ef hlutfallið er 100% duga iðgjöld tiltekins tímabils fyrir öllum gjöldum sama tímabils en ef hlutfallið er yfir 100% standa iðgjöld ekki undir kostnaði og tap er af vátryggingarekstrinum.
Eðli málsins samkvæmt setja tryggingafélög sér því markmið um að hlutfallið sé undir 100%, því þá er afgangur af vátryggingarekstrinum.
„Almennt séð var tjónaþróun hagfelld á fjórðungnum og betri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Hins vegar hentu fjórir stórir brunar viðskiptavini okkar á fjórðungnum. Eðli málsins samkvæmt hafa tjón sem þessi mikil áhrif á afkomu þess fjórðungs sem þau lenda í en undirliggjandi rekstur er mjög sterkur sem mildar áhrifin að miklu leyti. Áhrif brunatjóna á samsett hlutfall á fjórðungnum nam 10 prósentustigum,” segir Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvá.
„Afkoma af fjárfestingastarfsemi fyrir fjármagnsliði var 61 m.kr. sem er undir væntingum en ásættanlegt í ljósi markaðsaðstæðna þar sem innlendir eignamarkaðir hafa verið afleitir síðustu misseri. Allir eignaflokkar, að undanskildum skráðum hlutabréfum, skiluðu jákvæðri afkomu á fjórðungnum. Ávöxtun skráðra hlutabréfa var -3,6%, ríkisskuldabréfa 1,4%, annarra skuldabréfa 2,1% og safnsins alls 0,3%. Í lok annars fjórðungs nam stærð eignasafnsins 56,6 milljörðum,” segir Hermann.
Töpuðu 13 milljónum á fyrri helmingi árs
Hagnaður Sjóvá af vátryggingasamningum fyrir skatta nam 92 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum ársins í samanburði við 401 milljón krónur á sama tímabili í fyrra.
Hagnaður af fjárfestingarstarfsemi fyrir skatta var 46 milljónir króna sem er lækkun úr 397 milljónum á fyrri helmingi árs 2023.
Sjóvá tapaði 13 milljónum króna á fyrri helmingi árs sem er töluvert verru afkoma en í fyrra þegar Sjóvá hagnaðist um 566 milljónir á fyrri helmingi ársins.
Ávöxtun fjárfestingareigna í stýringu 1,5% en var 1,4% í fyrra. Samsett hlutfall
Samsett hlutfall á fyrstu sex mánuðum ársins er 99,4%. Í árshlutauppgjörinu segir Sjóvá að horfur fyrir árið 2024 séu óbreyttar og gera megi ráð fyrir að afkoma af vátryggingasamningum verði um 1.100-1.600 m.kr. og samsett hlutfall 95-97%.
„Þegar horfur fyrir 2024 eru metnar verður að taka tillit til stórra brunatjóna sem hent hafa okkar viðskiptavini það sem af er ári. Okkar áætlanir gera ráð fyrir stórum tjónum sem nú hafa raungerst á fyrstu 6 mánuðum ársins. Einnig verður að líta til þess að undirliggjandi rekstur á fyrstu 6 mánuðum er afar sterkur og umfram væntingar. Horfur fyrir árið 2024 eru óbreyttar og er afkoma af vátryggingasamningum því enn áætluð 1.100-1.600 m.kr. og samsett hlutfall á bilinu 95-97%. Að óbreyttu má reikna með að niðurstaðan verði í neðri mörkum í afkomu og efri mörkum í samsettu hlutfalli. Horfur til næstu 12 mánaða eru einnig óbreyttar og gera ráð fyrir að afkoma af vátryggingasamningum verði um 1.100-1.600 m.kr. og samsett hlutfall 95-97%. Gangi þessar horfur eftir verður að telja þá niðurstöðu mjög vel við unandi,” segir Hermann.