Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá hafa öfgar í veðri haft veruleg áhrif á uppskeru kakós á Fílabeinsströndinni og Gana, þar sem tveir þriðju hlutar kakóframleiðslu heimsins fer fram.
Þar hafa alvarlegir þurrkar og óvenjumikil úrkoma leitt til uppskerubrests á undanförnum árum. Slík veðurskilyrði hafa jafnframt skapað kjöraðstæður fyrir ýmsa plöntusjúkdóma sem draga verulega úr framleiðslugetu kakótrjáa og geta jafnvel leitt til þess að trén deyi.
Samdráttur í framboði kakóbauna hefur leitt til aukinnar samkeppni um kakóbirgðir, sem hefur ýtt verðinu upp á hrávörumarkaði.
Kakóverð náði hámarki í desember sl. þegar það stóð í nærri 10 þúsund breskum pundum á tonnið á hrávörumarkaði í London. Þá hafði kakóverð nærri þrefaldast frá byrjun árs 2024. Það stendur nú í tæplega sjö þúsund pundum á tonnið, en til samanburðar sveiflast verðið á bilinu 1-2 þúsund pund á tonnið í venjulegu árferði.
Engin „magnskerðing“ hjá Nóa
Súkkulaðiframleiðendur um allan heim hafa brugðist við stöðunni með ýmsum hætti, ekki einungis með því að hækka verð. Hugtakið „shrinkflation“ hefur orðið meira áberandi að undanförnu – en það felur í sér í stuttu máli að framleiðendur minnka stærð eða þyngd vara sinna en halda sama verði.
Sigríður Hrefna Hrafnkelsdóttir, forstjóri Nóa Síríus, segir að fyrirtækið hafi ákveðið að fara ekki þá leið.
„Við höfum hins vegar séð það hjá öðrum innlendum framleiðendum, þar sem umbúðir og magn hafa verið minnkuð.“
Þess í stað hefur fyrirtækið lagst í umfangsmiklar hagræðingaraðgerðir og hefur t.a.m. endursamið við birgja, einfaldað virðiskeðjuna og ekki ráðið sumarstarfsfólk.
Þá tók félagið yfir hundrað vörunúmer, sem ýmist innihéldu mikið af kakó eða skiluðu ekki ásættanlegri arðsemi, úr vöruvalinu á síðasta ári.
Enn fremur hefur Nói aðlagað innkaupastefnu sína í ljósi sveiflna á hrávörumarkaði. Félagið kaupir minna af kakó í einu og með skemmri fyrirvara.
Með þessum aðgerðum hafi félagið reynt að ná sem hagstæðasta verði til neytenda þó að verðhækkanir á kakó hafi óumflýjanlega leitt til verðhækkana.
„Það er hundleiðinlegt að neytendur þurfi að finna fyrir þessum hækkunum,“ segir Sigríður en bætir við að með aðgerðunum hafi félagið t.d. ekki þurft að hækka verð á páskaeggjum eins mikið og ella.
Hún segir félagið fylgjast náið með þróun kakóverðs og sé tilbúið að lækka verð á vörum sínum um leið og hrávöruverð lækkar.
„Það er alveg klárt að við munum lækka verð um leið og tækifæri gefst.“
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.