Tækniþjónustufyrirtækið Parka gagnrýnir þá umræðu sem hefur verið í fjölmiðlum undanfarna daga varðandi innheimtu bílastæða- og vangreiðslugjalda en félagið hefur verið sakað um að hjálpa ekki notendum og að innheimta óhófleg vangreiðslugjöld.
Freyr Ólafsson og Þorsteinn Guðjónsson, framkvæmda- og sölustjóri Parka, segja að félagið hafi fyrst og fremst verið stofnað til að koma til móts við aukið flæði ferðamanna og þéttingu byggðar og að markmiðið sé að gera greiðsluferli bílastæða eins lipurt og hægt er.
Þeir benda á að Parka sjái um þjónustu varðandi greiðslur sem eigendur bílastæða hafi ákvarðað fyrir notkun bílastæða og að Parka sjái ekki um gjaldlagningu. Þeir segja að félagið taki vel í allar ábendingar sem berist til þeirra í tengslum við rekstur starfseminnar.
„Þetta er pínu lítið eins og að skjóta kortafyrirtæki fyrir verðlagið í matvöruverslun. Við erum vissulega þjónustuaðilinn og nafnið sem fólk sér á bílastæðum og svörum líka fyrir eigendur bílastæða, en við teljum umræðuna ekki sanngjarna á öllum stöðum,“ segir Þorsteinn.
Hann bætir við að Parka sé ekki í neinu stríði við hvorki Neytendasamtökin né Neytendastofu, sem sektaði meðal annars félagið í síðasta mánuði. „Við tökum til okkar góðar ábendingar Neytendastofu, höfum þegar brugðist við athugasemdum þeirra, með eigendum stæðanna, og erum áfram að vinna í því að skýra málin betur og bæta það sem betur má fara.“
Flókið umhverfi
Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, sagði í viðtali við Morgunblaðið í dag að bílastæðaumhverfið væri orðið allt of flókið og að óvissan gerði lífið erfiðara fyrir neytendur.
Hann segir í viðtalinu að FÍB hafi sent ábendingar til innviðaráðuneytisins um úrbætur í málaflokknum en án árangurs og hefur jafnframt áhyggjur af starfsemi bílastæðaappa á landsbyggðinni.
Aðspurður um hvort starfsemin sé orðin of flókin segist Freyr Ólafsson hjá Parka fá það á tilfinningunni að þau rök séu orðin að frasa hjá mörgum sem virðast nærast á neikvæðri umræðu.
„Fyrirtækin byggja upp sín stæði og hafa mismunandi forsendur, drifkrafta og þarfir. Sum þeirra vilja ekki fá utanaðkomandi gesti og setja upp gjaldskrár fyrir veru eða vangreiðslugjöld í samræmi við það. Önnur vilja hafa öra tíðni á umskiptum,“ segir Freyr og nefnir þar stæði hjá læknastofum þar sem eigendur vilja fæla þá frá með verðlagningu sem leggja stóran hluta dags, meðan lægra gjald er tekið fyrir „læknatímastopp“.
Greiðsluferlið og vangreiðslugjöld
Þorsteinn segir að það sé margt nýtt í greiðsluferli bílastæða sem bæði fyrirtæki og neytendur séu að læra jafnóðum inn á. Sökum mismunandi tækni þá sé ekki alltaf farið eins að og gæti það skapað óöryggi og misskilning.
„Sums staðar þurfa ökumenn að stimpla sig bæði inn og út en á öðrum stöðum, þar sem myndavélar eru til staðar, þarf aðeins að stimpla sig inn og svo sér myndavélin um að stimpla þig út. Svo erum við með nýja sjálfvirka lausn sem sér um bæði en það getur verið áskorun að kenna notendum hvað á að gera á hverjum stað.“
Hann segir að Parka reyni að sýna lipurð og að félagið vinni við að hjálpa fólki sem hefur samband og sýni með sannanlegum hætti að reynt hafi verið að greiða. „Það er ekki markmið hjá Parka að rukka fólk sem var að reyna að greiða.“
Í tengslum við há vangreiðslugjöld segir Þorsteinn að tæknin spili líka inn í en á þeim stöðum þar sem ekki eru myndavélar sé ómögulegt fyrir bílastæðaverði að vita hvenær bíl hafi verið lagt og segir að það hafi verið viðmið að vangreiðslugjöld séu á pari við heilan dag á bílastæði sem ekki var greitt fyrir.
„Ég skil það vel að fólk sé ósátt við að þurfa að borga fyrir eitthvað sem það borgaði ekki fyrir áður. Sorpa gekk líka í gegnum svipað þegar gjaldtaka hófst á rusli.“
Lærdómsferli
Parka segist ítreka afstöðu sína gagnvart ábendingum sem það fái en bendir á að þættir eins og vangreiðslugjöld séu notuð víða um heim sem fælingarmáttur fyrir ökumenn sem hyggjast ekki greiða fyrir stæði.
„Við reynum að læra sem hraðast og mest og viljum bæta það sem betur má fara.“
Freyr og Þorsteinn segja að í fullkomnum heimi myndu allir greiða á staðnum en segja að þegar greiðsla berist ekki samstundis þá myndist annað ferli þar sem fyrirtækið þurfi að leita að eiganda bifreiðar, fletta upp gögnum, stofna kröfur í banka og fleira sem feli í sér kostnað.
„Við tökum öllum ábendingum vel og við erum í liði með neytendum. Við reynum að læra sem hraðast og mest og viljum bæta það sem betur má fara. Við erum ungt íslenskt nýsköpunarfyrirtæki sem vill frekar eyða orkunni í að hjálpa, einfalda og sjálfvirknivæða, heldur en að berjast við nettröll. Við erum að reyna að gera þetta allt eftir bestu getu og viljum gera það áfram.“