Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna, hótaði nýlega að hækka tolla á allar innfluttar vörur frá Mexíkó og Kanada um 25%. Þar að auki vill hann leggja aukalega 10% á allar vörur sem koma frá Kína.
Hinar umræddu þjóðir hafa svarað fyrir sig og varað við því að tollarnir gætu leitt til viðskiptastríðs. Bandaríkjamenn gætu þar að auki tapað á tollunum þar sem bandarískar verslanir þyrftu að greiða kostnaðinn sem kæmi niður á neytendum.
Einn iðnaður sem gæti orðið fyrir verulegum áhrifum er tölvuleikjaiðnaðurinn en þegar Donald Trump hótaði tollunum fyrst árið 2019 sameinuðust samkeppnisaðilarnir Microsoft, Sony og Nintendo og skrifuðu opið bréf til forsetans til að vara við afleiðingunum.
„Verðhækkun sem hljómar upp á 25% myndi líklega gera tölvuleikjavörur of dýrar fyrir margar bandarískar fjölskyldur. Ef þessar tollskráningar fara í gegn myndu neytendur þurfa að greiða 840 milljónir dala aukalega fyrir leikjatölvur.“
Áskorun fyrirtækjanna tókst og ákvað Trump að seinka innleiðingu þessara tolla. PlayStation 5 og Xbox Series X/S komu á markað án aukatolla og hélt tölvuleikjaiðnaðurinn áfram eðlilegri starfsemi.
Nú hefur Trump endurtekið áætlun sína um að hækka tolla og felur áætlunin í sér 60% innflutningstoll á allar vörur sem framleiddar eru í Kína. Markmiðið er að auka skatttekjur og styðja við bandarísk störf.
Vandamálið er hins vegar að leikjatölvur eins og PlayStation og Xbox eru framleiddar í Kína og er ekki útlit fyrir að sá iðnaður sé að færast yfir til Bandaríkjanna á næstunni.
Samkvæmt skýrslu frá Consumer Technology Association, sem gefin var út í október, myndu tollarnir hækka verð á leikjatölvum um 40%. Bandaríkjamenn myndu því greiða um sjö milljörðum meira fyrir leikjatölvur og er því spáð að sala þessara tölva myndi dragast saman um 57%. Vörur sem tengjast leikjaiðnaðinum, eins og snúrur og sjónvörp, myndu þá einnig hækka í verði.
„Nintendo Switch myndi hækka úr 300 dölum í 400 dali. PS5 Pro myndi hækka úr 700 dölum í þúsund dali. Nvidia-skjákortin, sem notuð eru til að smíða leikjatölvur, myndu einnig sjá svipaðar hækkanir. Sala á Switch 2-leikjatölvunni, sem er væntanleg í mars 2025, gæti einnig dregist verulega saman þar sem hún yrði tvöfalt dýrari í Bandaríkjunum en forveri hennar,“ segir í skýrslunni.