Donald Trump Bandaríkjaforseti segir að hann sé að íhuga að leggja 10% toll á innfluttar vörur frá Kína frá og með 1. febrúar. Hann segir að ákvörðunin byggist á þeirri staðreynd að Kínverjar væru að senda fentanýl til Mexíkó og Kanada.
Fyrir embættistöku hafði Trump ítrekað sagt að hann vildi leggja 25% toll á vörur frá Mexíkó og Kanada og allt að 60% toll á innfluttar vörur frá Kína.
Á blaðamannafundi í Washington í gær bætti nýi forsetinn við að hann myndi einnig leggja tolla á vörur frá Evrópusambandinu. „Kína misnotar okkur en ESB er mjög, mjög slæmt fyrir okkur. Þeir koma mjög, mjög illa fram við okkur.“
Stuttu eftir embættistöku Trump á mánudaginn gaf forsetinn einnig út þau fyrirmæli um að alríkisstofnanir skyldu endurskoða núverandi viðskiptasamninga og greina frá ósanngjörnum viðskiptaháttum.
Tollar virðast vera stór þáttur af nýrri efnahagsáætlun Trumps en forsetinn telur að þeir muni auka vöxt, vernda störf og hækka skatttekjur. Margir hagfræðingar segja hins vegar að slíkar aðgerðir gætu leitt til hækkandi verðlags og skaðað fyrirtæki sem verða fyrir barðinu á hefndartollum en Kanada, Kína og Mexíkó eru helstu viðskiptalönd Bandaríkjanna.