Donald Trump hefur ákveðið að lækka tolla á pakkasendingar sem koma frá kínverska meginlandinu og Hong Kong til Bandaríkjanna aðeins örfáum klukkustundum eftir að tvö stærstu hagkerfi heims ákváðu að semja um tollalækkanir í 90 daga.

Á vef BBC segir að lækkunin eigi við um undanþágu sem átti við um pakkasendingar þar sem verðmæti var undir 800 dalum, eða um 105 þúsund krónum.

Hægt var að senda slíkar pakkasendingar tollfrjálst fyrir 2. maí en eftir það féllu þær undir 120% toll og var fast 200 dala gjald sett á hverja sendingu. Sá tollur hefur nú verið lækkaður niður í 54% og hefur gjaldið verið lækkað niður í 100 dali.

Kínversku netverslanirnar Shein og Temu höfðu áður reitt sig á þessa svokölluðu minimis-undanþágu en eftir ákvörðun Trumps ákváðu netrisarnir að notast frekar við innlenda bandaríska dreifingaraðila.