Samkvæmt útreikningum FÍB myndu brúartollar við Ölfusá til 20 ára kosta bílaeigendur um 59 milljarða króna og hátt í 92 milljarða til 30 ára. Þetta segir í tilkynningu frá félaginu en þar segir að ekkert gangi að semja um byggingu og fjármögnun nýrrar brúar yfir Ölfusá.

Áætlaður byggingarkostnaður nýrrar brúar er 14,3 milljarðar króna af aðliggjandi vegum.

„Ríkið vill forðast lántökur fyrir framkvæmdinni og frekar fá verktaka til að byggja brúna á sinn kostnað. Verktakinn fái í staðinn að innheimta brúartolla í 20-30 ár til að mæta byggingar- og vaxtakostnaði,“ segir í tilkynningu.

FÍB lét framkvæma fyrir sig útreikninga miðað við þær forsendur að framkvæmdatíminn næði yfir þrjú ár, að fjármagnskostnaður á framkvæmdatíma legðist ofan á framkvæmdakostnaðinn, að 7.000 bílar færu yfir brúna á dag fyrsta árið og að umferð aukist um 3% á ári á þeim tíma sem veggjöld væru innheimt.

Forsendan um bílafjölda er byggð á núverandi umferð á hringveginum fyrir austan Selfoss samkvæmt teljara Vegagerðarinnar. „Með öðrum orðum, gert er ráð fyrir að öll sú umferð fari um nýju brúna. Til að verktakinn fái fyrir vöxtum og kostnaði þyrfti brúartollur fyrir hverja einustu ferð að vera 816 kr. miðað við 20 ára innheimtutíma og 728 kr. miðað við 30 ár.“