Ítalski sportbílaframleiðandinn Ferrari hefur tilkynnt allt að 10% verðhækkun á ákveðnum bílategundum sem taka í gildi í vikunni. Verðhækkunin kemur í kjölfar nýjustu innflutningstolla Donalds Trumps.
Á vefsíðu CNBC kemur fram að verð á öllum innfluttum Ferrari-bílum, sem fluttir eru inn til Bandaríkjanna fyrir 2. apríl, muni haldast óbreytt.
Eftir það munu nýjar verðskrár taka í gildi fyrir bílategundirnar Ferrari 296, SF90 og Roma. Purosangue-jeppinn, 11Ccilindri og F80 munu sömuleiðis fá á sig 10% verðhækkun og gæti því verðmiðinn á hefðbundnum Ferrari-bíl hækkað um allt að 50 þúsund dali.
Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti á miðvikudaginn síðasta að 25% tollur yrði lagður á alla bíla sem ekki eru framleiddir í Bandaríkjunum. Á síðasta ári framleiddi Ferrari 13.752 bíla og voru þeir allir framleiddir í verksmiðju fyrirtækisins í Maranello á Ítalíu.
Benedetto Vigna, forstjóri Ferrari, sagði í viðtali fyrr í þessum mánuði að þó svo að viðskiptavinir Ferrari séu gjarnan ríkir einstaklingar þá þyrfti fyrirtækið engu að síður að fara varlega í verðhækkanir.