Verð á Sony PlayStation 5-leikjatölvum í Bandaríkjunum munu hækka um 50 dali, eða 6.100 krónur, frá og með deginum í dag vegna tollahækkana Donalds Trumps. Sony hefur einnig glímt við hækkandi útgjöld og minnkandi eftirspurn á tölvuleikjamarkaði.

Á vef BBC er vitnað í Isabelle Tomatis, varaforseta alþjóðlegrar markaðssetningar hjá Sony Interactive Entertainment, sem segir að mörg alþjóðleg fyrirtæki standi frammi fyrir afar krefjandi markaðsumhverfi.

Bandarísk fyrirtæki sem selja japanskar vörur standa nú frammi fyrir 15% tollum á þeim innfluttu vörum. Aðrar japanskar leikjatölvur, eins og Nintendo, hafa einnig séð svipaðar verðhækkanir og þurfti til að mynda að hækka verð á Nintendo Switch.

Grunnútgáfa PlayStation 5 mun nú kosta 499,99 dali, eða um 61.500 krónur, en allar þrjár útfærslur af leikjatölvunni munu sjá svipaða verðhækkun. Dýrasta útgáfan, PlayStation 5 Pro, mun nú kosta 749,99 eða um 92 þúsund krónur.

Til samanburðar kostar ódýrasta PlayStation 5 Slim-leikjatölvan á Íslandi 89.995 krónur í Elko og sú dýrasta, PlayStation 5 Pro, um 138.995 krónur.