Árið 2006 tók F-35 herþotan fyrst á loft frá bandaríska herflugvellinum í Fort Worth í Texas undir stjórn tilraunaflugmannsins Jon S. Beesely. Síðan þá hefur hún verið tákn um hernaðar- og tæknigetu Bandaríkjanna þrátt fyrir himinhátt verðlag.

Herþotan hefur verið kölluð dýrasta vopn í heimi og á síðu WSJ má sjá að, þökk sé nýjustu innflutningstollum Donalds Trumps, muni framleiðslukostnaður þotunnar bráðum hækka enn frekar.

F-35 herþotan er framleidd af vopnafyrirtækinu Lockheed Martin en notast engu að síður við rúmlega 1.900 birgja frá tugum landa sem útvega íhluti eins og örgjafa og skotstóla. Meira en 80 íhlutir koma meðal annars frá litlu dönsku fyrirtæki í Lystrup, skammt frá Árósum.

Nýjustu tollahækkanir munu að öllum líkindum gera marga þessa íhluti enn dýrari og hafa vopnafyrirtæki eins og Lockheed þegar beðið bandarísk stjórnvöld um undanþágu. Á meðan verið er að afgreiða þær beiðnir mun bandaríska varnarmálaráðuneytið að öllum líkindum þurfa að greiða stóran hluta af verðhækkuninni.

Meira en 80 íhlutir koma meðal annars frá litlu dönsku fyrirtæki skammt frá Árósum.
© Skjáskot (Skjáskot)

Christopher Calio, forstjóri RTX, sem framleiðir skynjara og hreyfla fyrir F-35 herþotuna, segir að tollfrjálst umhverfi hafi spilað lykilhlutverk í varnarmálaframleiðslu Bandaríkjanna í marga áratugi.

„Eins og hjá mörgum fyrirtækjum innan iðnaðarins reiðum við á alþjóðlega viðskiptavini. Við flytjum inn hráefni, íhluti og einingar frá öllum heimshornum,“ segir forstjóri RTX, sem býst við að tollarnir muni kosta fyrirtækið 850 milljónir dala á þessu ári.

Óvissa um alþjóðlegt samstarf

Tollarnir gætu einnig gert þau vopn sem Bandaríkjamenn kaupa að utan, eins og norskar og ísraelskar eldflaugar, dýrari ásamt því að setja þrýsting á erlenda viðskiptavini að kaupa minna af bandarískum vopnum.

Meira en 1.100 F-35 þotur hafa verið seldar til 20 landa síðan herþotan var formlega tekin í notkun árið 2015. Bandaríkin sáu jafnframt fyrir 43% af öllum alþjóðlegum vopnaútflutningi frá 2019-2024 en fluttu þó inn ekki nema 3%.

Samkvæmt breskum stjórnvöldum sjá bresk fyrirtæki um 15% af verðmæti hverrar herþotu sem framleidd er. BAE Systems framleiðir til að mynda hluta af skrokk vélarinnar ásamt stjórnstönginni. Rolls-Royce útvegar þá tæknibúnaðinn sem gerir þotunni kleift að taka á loft og lenda lóðrétt. Skotstóll þotunnar er einnig framleiddur í Bretlandi.

Áströlsk vopnafyrirtæki hafa þá tryggt sér samninga um framleiðslu F-35 íhluta að verðmæti 3,2 milljarða dala og sér danska fyrir Terma fyrir meira en 80 íhluti, þar á meðal hylkin sem halda vélbyssu herþotunnar á sínum stað.