Í nýrri greiningu Landsbankans kemur fram að 10% innflutningstollur Bandaríkjanna á íslenskar sjávarafurðir dragi úr samkeppnishæfni íslenskra framleiðenda.
Bandaríkin eru eitt mikilvægasta einstaka viðskiptaland Íslands utan Evrópu.
Árið 2024 fóru um 12% af vöruútflutningi landsins þangað. Sjávarafurðir voru þar á meðal stærri útflutningsflokkanna, en tollar sem bandarísk stjórnvöld leggja á fiskafurðir eru nú almennt um 10%, líkt og gagnvart flestum ríkjum sem ekki eiga fríverslunarsamning við Bandaríkin.
„Ætla má að hærra verð til kaupenda í Bandaríkjunum vegna tolla gæti dregið úr eftirspurn þar í landi og leitt til þess að íslenskar sjávarafurðir verði frekar fluttar til annarra landa. Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki flytja vörur á ótal markaði og geta líklega aðlagast breyttum aðstæðum tiltölulega hratt.“
Ef framboð ákveðinna sjávarafurða eykst verulega á öðrum mörkuðum vegna tilfærslu útflutnings ætti verðið að lækka og þannig gæti dregið úr útflutningsverðmætunum.
„Þriðjungur af vöruútflutningi okkar til Bandaríkjanna í fyrra voru sjávarafurðir, langmest þorskur og ýsa. Um 11% af íslenskum útflutningi á sjávarafurðum í fyrra fór til Bandaríkjanna og aðeins Bretar og Frakkar tóku við meiri fiski en Bandaríkjamenn. Síðustu ár hefur íslenskur eldisfiskur einnig verið fluttur til Bandaríkjanna í auknum mæli.“
Mikill munur milli útflutningsgreina
Greining Landsbankans dregur fram að stór hluti annars vöruútflutnings Íslands til Bandaríkjanna, einkum lyf og lækningavörur, sé undanþeginn tollum.
Þessar vörur námu samanlagt um 30% af útflutningi til Bandaríkjanna árið 2024. Þar á meðal eru lækningatæki, svo sem gerviliðir og gervilíkamshlutar, sem falla undir Nairobi-bókun Sameinuðu þjóðanna.
Hún tryggir tollfrelsi á lækningatækjum ætluðum fólki með varanlega fötlun. Lyf eru sömuleiðis tollfrjáls að svo stöddu, samkvæmt sérstakri forsetayfirlýsingu í Bandaríkjunum.
Þessi mismunandi meðferð eftir vöruflokkum skapar ójafnræði í samkeppnisstöðu íslenskra útflutningsgreina, þar sem sjávarútvegurinn nýtur ekki þeirra fríðinda sem aðrir fá.