Í nýrri greiningu Lands­bankans kemur fram að 10% inn­flutnings­tollur Bandaríkjanna á ís­lenskar sjávar­afurðir dragi úr sam­keppnis­hæfni ís­lenskra fram­leiðenda.

Bandaríkin eru eitt mikilvægasta ein­staka við­skipta­land Ís­lands utan Evrópu.

Árið 2024 fóru um 12% af vöruút­flutningi landsins þangað. Sjávar­afurðir voru þar á meðal stærri út­flutnings­flokkanna, en tollar sem bandarísk stjórn­völd leggja á fiska­furðir eru nú al­mennt um 10%, líkt og gagn­vart flestum ríkjum sem ekki eiga fríverslunar­samning við Bandaríkin.

„Ætla má að hærra verð til kaup­enda í Bandaríkjunum vegna tolla gæti dregið úr eftir­spurn þar í landi og leitt til þess að ís­lenskar sjávar­afurðir verði frekar fluttar til annarra landa. Ís­lensk sjávarút­vegs­fyrir­tæki flytja vörur á ótal markaði og geta lík­lega aðlagast breyttum aðstæðum til­tölu­lega hratt.“

Ef fram­boð ákveðinna sjávar­afurða eykst veru­lega á öðrum mörkuðum vegna til­færslu út­flutnings ætti verðið að lækka og þannig gæti dregið úr út­flutnings­verðmætunum.

„Þriðjungur af vöruút­flutningi okkar til Bandaríkjanna í fyrra voru sjávar­afurðir, lang­mest þorskur og ýsa. Um 11% af ís­lenskum út­flutningi á sjávar­afurðum í fyrra fór til Bandaríkjanna og aðeins Bretar og Frakkar tóku við meiri fiski en Bandaríkja­menn. Síðustu ár hefur ís­lenskur eldis­fiskur einnig verið fluttur til Bandaríkjanna í auknum mæli.“

Mikill munur milli út­flutnings­greina

Greining Lands­bankans dregur fram að stór hluti annars vöruút­flutnings Ís­lands til Bandaríkjanna, einkum lyf og lækninga­vörur, sé undanþeginn tollum.

Þessar vörur námu saman­lagt um 30% af út­flutningi til Bandaríkjanna árið 2024. Þar á meðal eru lækningatæki, svo sem gervi­liðir og gervi­líkams­hlutar, sem falla undir Nairobi-bókun Sam­einuðu þjóðanna.

Hún tryggir toll­frelsi á lækningatækjum ætluðum fólki með varan­lega fötlun. Lyf eru sömu­leiðis toll­frjáls að svo stöddu, sam­kvæmt sér­stakri for­seta­yfir­lýsingu í Bandaríkjunum.

Þessi mis­munandi með­ferð eftir vöru­flokkum skapar ójafn­ræði í sam­keppnis­stöðu ís­lenskra út­flutnings­greina, þar sem sjávarút­vegurinn nýtur ekki þeirra fríðinda sem aðrir fá.