Óvissa um tollastefnu Bandaríkjanna hefur vaxið síðustu vikur en samkvæmt greiningu Hafsteins Haukssonar, aðalhagfræðings Kviku banka, er ljóst að tollastríð muni hafa víðtæk áhrif á íslenskan útflutning og efnahagslíf.
„Í ljósi þess að ofurtrú á tolla hefur verið einn af fáum föstum í stjórnmálaheimspeki Donalds Trump allt frá 9. áratug síðustu aldar, og er í vaxandi mæli undirbyggð skýrri hugmyndafræði um hagræna þjóðernishyggju, teljum við að það sé bjartsýnt að ganga út frá því að eingöngu sé um samningatæki að ræða, og fallið verði frá áformum um aukna tollheimtu á endanum,“ segir í skýrslu greiningardeildar Kviku banka.
Að mati bankans er fjárfestum líklega ekki stætt á öðru en að taka hótanir um varanlega breytingu á fyrirkomulagi alþjóðaverslunar alvarlega.
Næsti tollaskammtur á viðskiptalönd Bandaríkjanna verður lagður á 2. apríl, en þá kemur í ljós með hvaða hætti verslun við Evrópu verður tolllögð og hvort tollar nái til íslensks útflutnings.
„Tollar á Ísland og önnur Evrópuríki munu hafa ótvíræð neikvæð áhrif á innlend efnahagsumsvif, enda má segja að bakslag í alþjóðaverslun sé ígildi hliðrunar bæði framboðs og -eftirspurnar á heimsvísu. Áhrifin á verðbólgu eru tvísýnni og ráðast af því hvort eftirspurnar- eða framboðsáhrif tollanna verða sterkari,“ segir í skýrslu Kviku banka.
Í skýrslunni segir að það sé vel hugsanlegt að tollarnir raski alþjóðlegum birgðakeðjum og því leiði þeir til alþjóðlegrar verðbólgu vegna framboðshnökra, svipað og í kjölfar farsóttarinnar.
Öfugt við farsóttartímann gætu slíkir hnökrar átt sér stað á sama tíma og eftirspurn dregst saman á heimsvísu, sérstaklega ef afleiðingin verður allsherjar tollastríð.
Þótt tollar muni líklega valda verðbólgu í Bandaríkjunum er því fjarri sjálfgefið að sú verði raunin í öðrum ríkjum.
Greiningardeild Kviku banka hallast að því að áhrif minni eftirspurnar og hliðrunar viðskipta verði sterkari en hugsanleg röskun birgðakeðja (a.m.k. fyrir íslenskan innflutning).
„Því ætti tollastríð frekar að draga úr verðbólgu, minnka efnahagsumsvif og þar með styðja við vaxtalækkanir á Íslandi,“ segir í skýrslu Kviku banka.
Útflutningur í hættu – áhrif á íslenskt hagkerfi
Greining Hafsteins bendir til þess að hækkun tolla í Bandaríkjunum gæti haft marktæk áhrif á ýmsa þætti íslensks efnahagslífs:
- Vöruflutningur til Bandaríkjanna gæti minnkað, en hann nam um 25 milljörðum króna árið 2024, eða 0,6% af VLF.
- Útflutningur tækja og vara til lækninga til Bandaríkjanna stendur í 39 milljörðum króna (0,9% af VLF) og gæti orðið fyrir verulegum áhrifum.
- Útflutningur sjávarafurða og laxeldisafurða til Bandaríkjanna sem nam 46 milljörðum króna (1,0% af VLF) gæti orðið fyrir áhrifum. Bandaríkin eru mikilvægur markaður fyrir íslenskan fisk en þó er tekið fram að íslenskur sjávarútvegur er með öflugt sölustarf og líklega geti útflytjendur fundið aðra markaði ef Bandaríkin bregðast.
- Útflutt þjónusta, sérstaklega í ferðaþjónustu, var um 308 milljarðar króna (6,8% af VLF) og gæti minnkað ef færri Bandaríkjamenn heimsækja Ísland vegna minni kaupmáttar.
- Allur íslenskur útflutningur utan Bandaríkjanna var 1.478 milljarðar króna (32,4% af VLF) gætu orðið fyrir óbeinum áhrifum tollastríðs efr það verður bakslag í alþjóðlegri eftirspurn.
Samkvæmt Kviku banka munu áhrifin fara eftir því hvort tollarnir leiða til verðbólgu eða minnkandi eftirspurnar í Bandaríkjunum, en ef minni innflutningur dregur úr heimsviðskiptum gæti það einnig leitt til minni eftirspurnar eftir íslenskum vörum og þjónustu.
Hætta er á að gengisbreytingar verði óstöðugar og að aukin óvissa í alþjóðaviðskiptum leiði til minni fjárfestinga.
Fyrir Ísland gætu tollahækkanir dregið úr efnahagsvexti og sem fyrr segir skapað þrýsting á Seðlabankann um að viðhalda eða jafnvel lækka vexti til að vega upp á móti neikvæðum áhrifum á hagkerfið.
Verði tollar hækkaðir gæti það dregið úr eftirspurn eftir íslenskum vörum, sérstaklega sjávarafurðum, tækjum og ferðaþjónustu.
Þessi þróun gæti leitt til breytinga á gengismálum og skapað áskoranir fyrir íslenskt hagkerfi í heild.