Óhætt er að segja að það hrikti í stoðum alþjóðaviðskipta eftir að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, lagði ofurtolla á helstu viðskiptaríki Bandaríkjanna. Einungis er tímaspursmál hvenær sambærilegir tollar verði lagðir á Evrópusambandsríkin. Viðskiptablaðið ræðir við framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins, sem og forstjóra Alvotech og Kerecis um stöðu mála.
Bandaríkjastjórn hóf nýtt tollastríð á mánudaginn þegar Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, tilkynnti um nýja tolla á vörur frá Kanada, Mexíkó og Kína. Í kjölfarið lækkuðu hlutabréf í verði víðsvegar um heiminn. Bandarískir hlutabréfamarkaðir tóku verulega við sér eftir forsetakosningarnar en nú hafa hækkanir síðustu fjögurra mánaða þurrkast út. Sem dæmi hefur Nasdaq-vísitalan í Bandaríkjunum lækkað um 10% síðan um miðjan desember. Á Íslandi lækkaði Úrvalsvísitalan um 3,95% í gær.
Svo virðist sem einungis sé tímaspursmál þar til Bandaríkjastjórn leggi ofurtolla á vörur frá Evrópusambandinu. Fyrir viku, miðvikudaginn 26. febrúar, sagðist Trump stefna að því að leggja 25% toll á vörur frá Evrópusambandinu.
Bandaríkin sett í þumalskrúfu
Evrópusambandið er greinilega þyrnir í augum Trump því hann sagði að það hefði verið stofnað til að setja þumalskrúfu á Bandaríkin (e. formed to screw to United States). Þessari staðhæfingu hafa leiðtogar Evrópusambandsins vísað til föðurhúsanna. Hafa þeir sagt að verði tollar lagðir á Evrópusambandið þá mun það svara í sömu mynt, standa vörð um evrópsk fyrirtæki, vinnuafl og neytendur.
Grundvöllur tollanna
Nýju tollarnir, sem Bandaríkjastjórn hefur sett á vörur frá Kanada, Mexíkó og Kína, eru lagðir á á grundvelli neyðarlaga, sem heimila forsetatilskipanir um tilteknar efnahagslegar aðgerðir ef að landinu steðjar utanaðkomandi ógn (e. International Emergency Economic Powers Act eða IEEPA).
Lögin hafa verið nýtt sem grundvöllur ýmissa forsetatilskipana síðan þau tóku gildi árið 1977. Eitt þekktasta dæmið er þegar eignir alþjóðlegra hryðjuverkasamtaka, þar á meðal Al-Kaída, voru frystar eftir árásina á Tvíburaturnana árið 2001.
Lagðir hafa verið 25% tollar á allar vörur frá Mexíkó. Ógnin sem vísað er til þessu samhengi, grundvöllur neyðarástandsins, er innstreymi ólöglegra innflytjenda og fíkniefna til Bandaríkjanna.

© epa (epa)
Vill verksmiðjur til Bandaríkjanna
Settur hefur verið 25% tollur á flestar vörur frá Kanada. Undantekningin er olía, gas og raforka en 10% tollur var settur á þessar vörur. Financial Times greinir frá því að 60% af hráolíuinnflutningi Bandaríkjanna sé frá Kanada. Ástæðan fyrir tollunum er ólöglegur innflutningur fíkniefna frá Kanada til Bandaríkjanna.
Þessi stefnubreyting bandarískra stjórnvalda gagnvart Mexíkó og Kanada þýðir að áratugalöng saga fríverslunar ríkjanna þriggja er nú á enda. Þó ólöglegt innstreymi fólks og fíkniefna séu hinar formlegu ástæður tollanna þá hefur Trump sagt að hann vilji einfaldlega auka framleiðslu í Bandaríkjunum sjálfum. Hann vill sem dæmi að bílaframleiðendur reki sínar verksmiðjur í Bandaríkjunum því þá „borga þeir enga tolla” (e. So what they have to do is build their car plants, frankly, and other things in the United States, in which case they have no tariffs).
Á mánudaginn tilkynnti Trump ennfremur að lagður hefði verið 10% viðbótartollur á vörur frá Kína. Þetta þýðir að nú er 20% tollur kominn á flestar kínverskar vörur því fyrir nokkrum vikum var lagður 10% tollur á kínverskar vörur.
Svara í sömu mynt
Ríkisstjórn Kanada hefur þegar svarað þessum efnahagsþvingunum með því að leggja 25% tolla á valdar bandarískar vörur. Jafnframt var tilkynnt að eftir þrjár vikur yrðu myndu tollarnir ná til enn fleiri vöruflokka en nú.

© epa (epa)
Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, sagði enga réttlætingu fyrir ákvörðun Trump og að kanadísku tollarnir yrðu í gildi allt þar til Bandaríkjastjórn myndi draga ákvörðun sína tilbaka og lækka tolla á kanadískar vörur. Trump svaraði þessu í kvöld á samfélagsmiðlinum Truth Social. Hótaði hann því að hækka tolla á kanadískar vörur enn meira - hefna hefndartollanna. Hann gerði gott betur og kallaði Trudeau ríkisstjóra Kanada og vísaði þar til þess sem hann hefur áður sagt - að Kanada eigi að vera 51. ríki Bandaríkjanna.
Kínversk stjórnvöld hafa svarað með því að leggja tolla á bandarískar landbúnaðarvörur síðdegis í dag sögðust mexíkósk stjórnvöld ætla að tilkynna um nýja tolla á bandarískar vörur á sunnudaginn.

© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)
Staða Íslands
Sú spurning hefur vaknað hver staða Íslands sé í þessari breyttu heimsmynd viðskipta. Eins og staðan er í dag veit enginn hvort og þá hvaða afleiðingar tollar á Evrópusambandið munu hafa Ísland og Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA), en Ísland er í þeim.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra hefur eðlilega lýst yfir áhyggjum af ástandinu og lagt á það áherslu að Ísland klemmist ekki á milli hagsmuna Bandaríkjanna og Evrópusambandsins. Í viðtali við Morgunblaðið fyrir tveimur vikum sagði hún að vöruskiptajöfnuður milli landanna væri Bandaríkjunum í hag. Í öllum viðræðum milli landanna hjálpaði þessi staðreynd Íslandi og því mikilvægt að benda Trump á hana. Í viðtali við Ríkisútvarpið á fimmtudaginn í síðustu viku sagði Þorgerður Katrín að íslensk stjórnvöld hefðu verið að halda uppi hagsmunum Íslands bæði vestanhafs og gagnvart Evrópusambandinu.

© Aðsend mynd (AÐSEND)
Hriktir í stoðum
Sigurður Hannesson er í ítarleg viðtali í sérblaði um Iðnþing, sem fylgir Viðskiptablaðinu í dag. Þar er hann spurður út í tollastríðið.
„Það eru miklir umbrotatímar og það hriktir í þeim stoðum sem við höfum þekkt um langt skeið,“ segir Sigurður. „Fyrir okkur skiptir aðgangur að mörkuðum mjög miklu máli en öryggis- og varnarmál eru líka komin mjög ofarlega á blað. Nú reynir á hagsmunagæslu, sem stjórnvöld munu bera á herðum sínum en atvinnulífið þarf líka að beita sér þar sem það er mögulegt, tala máli Íslands og efla tengsl. Við þurfum bæði að horfa til austurs og vesturs í þeim efnum. Þó Evrópa sé okkar langmikilvægasti markaður þá eru Bandaríkin vaxandi markaður og þá sérstaklega fyrir íslenskar vörur. Við flytjum meira út af lækningavörum og -tækjum til Bandaríkjanna heldur en þorski. Hagsmunirnir eru allt aðrir en áður.“
Reiknar með tollum á íslenskar vörur
Sigurður segir gríðarlega óvissu ríkja í dag. Spurður hvort hann telji að Bandaríkin muni leggja tolla á íslenskar vörur svarar hann: „Ég held að það verði einhverjir tollar lagðir á en það er ómögulegt að segja á hvaða vörur og hversu lengi. Hitt sem skiptir ekki síður máli er hvernig viðbrögðin verða. Við sjáum að þegar eitt ríki leggur tolla á innflutning frá öðru ríki, þá kemur eitthvað viðbragð, þá er svarað.
Ég fagna því að ríkisstjórnin tekur þetta mjög alvarlega og hefur talað fyrir hagsmunum Íslands erlendis, sem er nákvæmlega það sem þarf að gera í þessari stöðu. Eins og ég hef nefnt þá þarf að horfa bæði til austurs og vesturs í þessum efnum. Þó Evrópa sé okkar stærsti markaður þá er vaxandi útflutningur til Bandaríkjanna og það er ekki síst útflutningur hugverkaiðnaðar, lyf, lækningavörur og -tæki. Bandaríkin eru gríðarlega mikilvægur markaður fyrir fyrirtæki eins og til dæmis Alvotech, Kerecis, Nox Medical og Össur svo nokkur séu nefnd. Einnig er töluvert flutt af sjávarafurðum til Bandaríkjanna.“
Sigurður segist hafa mikla trú á ríkisstjórninni í þessum efnum. „Ég byggi það á tvennu. Annars vegar skilaboðunum sem ríkisstjórnin hefur sent og hins vegar því að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra er mjög reynd, ekki síst þegar kemur að alþjóðlegu samstarfi.“
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu og er meðal annars rætt við Róbert Wessman og Guðmund Fertram Sigrjónsson um tollastríðið. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.