Reykjavík Napólí ehf., félag utan um rekstur Flateyjar pizzustaðanna, hagnaðist um 34 milljónir króna á síðasta ári eftir að hafa skilað 1 milljón króna tapi árið áður. Rekstrartekjur námu 667 milljónum króna og jukust um 36% frá fyrra ári.

Eignir félagsins námu 106 milljónum króna í lok síðasta árs, skuldir 59 milljónum og eigið fé 47 milljónum. Eiginfjárhlutfall var því 44%. Í ársreikningi kemur fram að stjórnendur félagsins séu bjartsýnir á framtíð þess þó horfur á veitingamarkaði séu sífellt að versna. Samkeppni sé gríðarleg og kostnaður taki sífelldum hækkunum, bæði hvað varðar aðföng og laun.

Viðskiptafélagarnir Sindri Snær Jensson og Jón Davíð Davíðsson eiga nærri helmingshlut í félaginu, eða hvor um sig með 23% hlut. Brynjar Guðjónsson og Haukur Már Gestsson eiga einnig 23% hlut hvor. Eftirstandandi 8% hlutur er svo í eigu Sveins Rafns Eiðssonar, forstjóra Lagardère Travel Retail Iceland. Stjórn félagsins leggur til að 41 milljón króna verði greidd í arð til hluthafa á yfirstandandi ári vegna reksturs síðasta árs. Á síðasta ári voru greiddar út rúmlega 50 milljónir króna í arð til hluthafa.

Þrír af ofangreindum eigendum Flateyjar eru einnig eigendur Yuzu ehf., sem rekur samnefnda hamborgarastaði. Sindri Snær og Jón Davíð eiga hvor um sig 30% hlut og Sveinn Rafn 10%. Eftirstandandi 30% hlutur er svo í eigu Hauks Más Haukssonar, sem er betur þekktur undir nafninu Haukur Chef. Rekstrartekjur félagsins námu 482 milljónum króna á síðasta ári, samanborið við 298 milljónir árið 2021. Sala jókst því um 61% milli ára. Hagnaður nam 7 milljónum króna og jókst um 3 milljónir frá fyrra ári.

Félagið opnaði tvo nýja staði í nóvember á síðasta ári. Annan í Kringlunni og hinn í mathöllinni við Pósthússtræti. Alls eru fimm Yuzu staðir í rekstri. Í ársreikningi kemur fram að stjórnendur séu jákvæðir á horfur félagsins og stefni að frekari stækkun Yuzu vörumerkisins á næstu árum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast fréttina í heild sinni hér.