Sala Tesla á rafbílum innan Evrópusambandsins dróst saman í febrúar, annan mánuðinn í röð, þrátt fyrir aukna eftirspurn eftir rafbílum.
Samkvæmt gögnum Evrópusamtaka bifreiðaframleiðenda (ACEA) féllu nýskráningar Tesla-bíla um 47% í febrúar miðað við sama mánuð í fyrra og námu 11.743 bílum. Á sama tíma jókst sala rafbíla í heild um 24%.
Hrun í sölu Tesla í janúar leiddi til lækkunar á hlutabréfaverði fyrirtækisins á síðasta ári, en gengi þess hefur haldið áfram að falla.
Líklegt er að endurbætur á framleiðslulínum í Berlín, þar sem verið er að undirbúa framleiðslu á endurhönnuðu Model Y-sportjeppanum, hafi haft áhrif á framboð og skapað óvissu hjá kaupendum.
Gögn ACEA sýna að heildarfjöldi nýskráðra bíla í Evrópu féll um 3,4% í febrúar.
Sala raf- og tengiltvinnbíla jókst, en það dugði ekki til að vega upp á móti minnkandi eftirspurn eftir bensín- og dísilbílum. Volkswagen og Renault skiluðu mestri aukningu í mánaðarlegum nýskráningum, en Stellantis tapaði mest.
Gengi Tesla hækkaði verulega í gær
Hlutabréf í Tesla hafa hækkað lítillega í framvirkum viðskiptum í morgun en gengi félagsins tók hins vegar stökk upp á við í gær.
Hlutabréf Tesla hækkuðu um 11,9% og leiddi félagið hækkanir í S&P 500-vísitölunni.
Hækkunin kemur í kjölfar starfsmannafundar hjá Tesla, þar sem Elon Musk, forstjóri fyrirtækisins, fullyrti að fjárfestar vanmetu framtíðarmöguleika sjálfkeyrandi tækni og vélmennaverkefna fyrirtækisins.
Þá greindi Tesla einnig frá því að sjálfvirka akstursaðstoðarkerfi fyrirtækisins yrði virkjað í Kína um leið og leyfi fengist frá stjórnvöldum.