Helstu tölvuleikjaframleiðendur Bandaríkjanna eins og Activision, Warner Bros og Walt Disney standa nú frammi fyrir verkfalli meðal Hollywood-leikara vegna notkunar gervigreindar.

Verkfallið kemur í kjölfar viðræðna, sem hafa staðið yfir í eitt og hálft ár, um nýjan samning milli fyrirtækjanna og stéttarfélags sem samanstendur af 2.500 tölvuleikjaleikurum.

Báðar hliðar hafa komið sér saman um nokkur lykilatriði tengd launum og vinnuöryggi. Vernd tengd notkun gervigreindar er hins vegar enn sögð vera mikil hindrun.

„Þrátt fyrir að samningar hafi náðst um mörg mál þá neita vinnuveitendur að staðfesta að þeir muni vernda alla leikara sem falla undir þennan samning þegar kemur að gervigreind. Við ætlum ekki að samþykkja samning sem gerir fyrirtækjum kleift að misnota gervigreind til að skaða meðlimi okkar,“ segir í yfirlýsingu frá stéttarfélaginu Sag-Aftra.

Leikararnir segjast hafa áhyggjur af því að fyrirtækin notist við gervigreind til að endurskapa raddir þeirra og líkamlegt útlit til að endurlífga tölvuleikjapersónur þeirra án þess að veita þeim sanngjarnar bætur.