Bandaríska símafyrirtækið AT&T segir að tölvuþrjótur hafi náð að hlaða niður símtölum og smáskilaboðum hjá nánast öllum viðskiptavinum sínum. Gögnin voru stolin árið 2022 en ekkert benti til þess að þeim hafi verið deilt opinberlega.

Fyrirtækið bætir við að tölvuþrjóturinn hafi ekki komist yfir persónulegar upplýsingar um áskrifendur eins og nöfn, kennitölur eða kreditkortanúmer.

AT&T segir að árásin hafi beinst gegn skýjaneti þriðja aðila sem hafði geymt upplýsingar frá nánast öllum viðskiptavinum, bæði í gegnum farsíma og heimasíma. Fyrirtækið segist vinna í samstarfi við lögregluyfirvöld og að minnsta kosti einn hafi verið handtekinn.

„Á þessari stundu teljum við ekki að gögnin séu aðgengileg almenningi,“ segir AT&T í yfirlýsingu.

Atvikið er aðeins eitt af mörgum sem hafa átt sér stað hjá fyrirtækinu, sem er með rúmlega 90 milljónir viðskiptavina. Fyrr á þessu ári greindi AT&T frá stórfelldum leka á persónugögnum um viðskiptavini og árið 2021 gerði fyrirtækið lítið úr fregnum um að það hefði orðið fyrir svipuðu gagnabroti.