Tómas Kristjánsson, stjórnarformaður fasteignafélagsins Regins, keypti í dag hluti í félaginu fyrir 80,5 milljónir króna í gegnum fjárfestingafélag sitt Sigla ehf. Alls keypti Tómas 3.299.241 hluti í félaginu á genginu 24,4 krónur á hlut. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallar.
Samkvæmt nýjasta lista yfir stærstu hluthafa Regins, sem síðast var uppfærður í byrjun mánaðar, var félag Tómasar tíundi stærsti hluthafi fasteignafélagsins með 61.700.759 hluti í sinni eigu, sem samsvarar 3,41% af heildarhlutafé fasteignafélagsins. Í kjölfar viðskiptanna á félag stjórnarformannsins alls 65 milljónir hluta í félaginu eða sem nemur um 3,6% af heildarhlutafé.
Í nótt var tilkynnt um að stjórn Regins hefði ákveðið að leggja fram valfrjálst yfirtökutilboð í allt hlutafé Eikar fasteignafélags. Verði tilboðið samþykkt verður markaðsvirði félagsins 77 milljarðar, sem þýðir að það verður eitt stærsta félag Kauphallarinnar.