Bjarni Benediktsson forsætisráðherra hefur skipað Tómas Brynjólfsson í embætti varaseðlabankastjóra fjármálastöðugleika Seðlabanka Íslands til fimm ára frá og með 1. ágúst nk.
Í tilkynningu forsætisráðuneytisins segir að Bjarni skipi Tómas á grundvelli niðurstöðu ráðgefandi hæfnisnefndar og að fenginni tilnefningu fjármálaráðherra samanber lög um Seðlabanka Íslands.
Tómas tekur við stöðunni af Gunnari Jakobssyni sem óskaði fyrr í ár eftir því að láta af störfum til að taka við stöðu yfirmanns fjárhagsáhættustýringar hjá banka í Mílanó.
Tómas hefur gegnt embætti skrifstofustjóra á skrifstofu efnahagsmála í fjármála- og efnahagsráðuneytinu frá árinu 2018 og var settur ráðuneytisstjóri frá janúar til apríl 2024.
Á árunum 2015-2018 var hann framkvæmdastjóri á skrifstofu þjónustuviðskipta hjá EFTA-skrifstofunni í Brussel. Þá var hann skrifstofustjóri á skrifstofu efnahagsmála og fjármálamarkaða í fjármálaráðuneytinu á árunum 2013-2015 en starfaði áður sem sérfræðingur í efnahagsmálum í forsætisráðuneyti og fjármálaráðuneyti. Á árunum 2006-2008 starfaði hann í greiningardeild Landsbankans.
Tómas var varaformaður stjórnar Fjármálaeftirlitsins á árinu 2015 og stjórnarformaður hjá Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda á árunum 2021-2023.