Spænska knattspyrnufélagið Real Madrid vinnur nú að því að bjarga milljarðs evru verkefni sínu um að gera heimavöll sinn, Santiago Bernabéu, einnig að fyrsta flokks tónlistar- og viðburðahöll allt árið í kring til að tryggja tekjustoðir sínar. Félagið hefur neyðst til að aflýsa tónleikum vegna gríðarlegra hljóðtruflana í nærliggjandi byggð. Finanacial Times greinir frá.
Ríflega 1,2 milljarða evra endurbætum á Bernabéu sem hófust árið 2021 lýkur senn. Bandaríska fjárfestingarfélagið Sixth Street fjárfesti í verkefninu fyrir 360 milljónir evra, eða yfir 50 milljarða króna, árið 2022, þegar framkvæmdir höfðu þegar staðið yfir í þrjú ár.
Nágrannar vallarins hafa hins vegar greint frá óbærilegum hávaða frá tónleikum á Bernabéu sem hófust í fyrra. Meðal tónlistarfólks sem flutti tónleika á vellinum í fyrra var Taylor Swift sem hélt tvenna tónleika fyrir samtals yfir 120 þúsund áhorfendur í maí sl.
Tónleikahald Swift er sagður hápunktur fyrir verkefni Real Madrid en hins vegar hafi tónleikarnir verið lágpunktur fyrir nágranna. Hávaði frá tónleikunum var sagður hafa verið svo mikill að sum hús hristust til, ekki heyrðist í sjónvörpum fyrir hávaða og börn gátu ekki sofið þar sem tónleikunum lauk yfirleitt ekki fyrr en rétt fyrir miðnætti.
Hörð mótmæli íbúa í nágrenni vallarins leiddu til þess að Real Madrid tilkynnti í september síðastliðnum að félagið hefði ákveðið að fresta öll tónleikum á vellinum til að tryggja að allt tónleikahald verði í samræmi við lög og reglur. Lögregluyfirvöld í Madríd höfðu áður upplýst að hávaðastig hefði verið langt umfram leyfileg mörk.
Í byrjun síðasta mánaðar boðaði spænska poppstjarnan Lola Índigo tónleika á Bernabéu þann 14. júní næstkomandi. Real Madrid neyddist til að leiðrétta hana og sagði félagið ekki enn í stöðu til að tryggja að tónleikar geti farið fram á á vellinum tilteknum dagsetningum.
Í ítarlegri umfjöllun Financial Times er málinu lýst sem hinu neyðarlegasta fyrir Real Madrid sem er verðmætasta knattspyrnufélag heims. Málið hafi orðið til þess að ásakanir um hver beri ábyrgð hafa gengið á víxl. Ýmsir tónlistarmenn sem hafa verið sektaðir fyrir tónleika sína á vellinum.
Talsmaður íbúa í nágrenni vallarins sagði að Real Madrid hefði með verkefninu reynt að fylgja eftir bandarísku líkani NFL valla sem eru gjarnan í útjaðri borga. Bernabéu sé hins vegar í miðri næst fjölmennustu borg ESB-svæðisins.