Fjölmiðlafyrirtækið Torg tapaði 240 milljónum króna á síðasta ári, samanborið við tæplega 600 milljóna tap árið 2020. Samtals tapaði Torg, sem heldur úti Fréttablaðinu, DV og Hringbraut, 840 milljónum á síðustu tveimur árum.

Greint var frá afkomu Torgs í Fréttablaðinu í morgun en ársreikningi félagsins hefur ekki verið skilað inn til fyrirtækjaskrár. Í fréttinni segir að taprekstrinum hafi að öllu leyti verið mætt með útgáfu nýs hlutafjár að andvirði 900 milljónum króna frá núverandi hluthöfum. Þá segir að Torg skuldi engin önnur vaxtaberandi lán en bankalán til þriggja ára að fjárhæð 180 milljónir króna.

Sjá einnig: Greiddi 300 milljónir fyrir DV

Samkvæmt síðasta ársreikningi var félagið til helminga í eigu Hofgarða ehf., sem er alfarið í eigu Helga Magnússonar, og HFB-77 ehf. Helgi fer með 82% hlut í HFB-77 samkvæmt fyrirtækjaskrá og því má ætla að hann eigi um 91% hlut í Torgi.

„Stjórnendur Torgs eru bjartsýnir á rekstur félagsins eftir að veiruvandinn er hættur að trufla athafnalíf landsmanna,“ segir í Fréttablaðinu sem kom út í morgun.